132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:28]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi skráningu kaupskipaflota á Íslandi er staðan þannig að Samskip eiga tvö skip sem þau skrá í Færeyjum. Olíudreifing er með eitt olíuskip og skráir það í Færeyjum. Eimskip er hins vegar með skip á svokallaðri þurrleigu, þ.e. leigir skipið en sér sjálft um áhafnirnar. Þessi skip eru undir fána Panama og fleiri fánum sem kallast þægindafánar. Af hálfu Eimskips er því aðeins áhafnaskráningin í Færeyjum. Þannig gæti orðið erfiðara en menn ætla að ná skipaskráningunni til Íslands. En ég tel eðlilegt að við mundum a.m.k. leggja okkur fram um að áhafnaskráning fari fram á Íslandi svo íslenska ríkið fái skatta og hafi skyldur af sjómönnunum.

Varðandi það að kalla fulltrúa samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis á fund samgöngunefndar þá skal ég ræða við hæstv. ráðherra beggja þeirra ráðuneyta, um hvort ekki sé eitthvað í pípunum sem gæti leitt okkur í sannleikann um hvernig málin standa varðandi þá vinnu.

Það er rétt að þeir komu til okkar á fund á haustdögum. Þá var afstaða ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins til þessara mála afgerandi en síðan er kominn nýr fjármálaráðherra sem hefur unnið að þessum málum á annan hátt en við fengum upplýsingar um í haust.