132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða fiskverkenda.

587. mál
[12:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég hef beint fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra varðandi samkeppnisstöðu fiskverkenda um það hver afstaða hæstv. ráðherra sé til ójafnrar stöðu fiskverkenda, annars vegar þeirra sem eru í beinum tengslum við útgerð og fá fiskinn á lægra verði og hins vegar þeirra sem kaupa hráefni sitt á mörkuðum en það er allt að 30% verðmunur á því sem þeir fá fiskinn á. Það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir þá sem vilja láta eðlileg markaðslögmál gilda að mismunurinn sé svo gríðarlegur. Þetta er einföld fyrirspurn hvað það varðar. Dæmin eru svo svakaleg í þessu að hæstv. ráðherra hlýtur að hafa velt þessu fyrir sér. Ég er með dæmi af sjómanni sem fær greitt samkvæmt uppgjöri, hann fékk greitt í föstum viðskiptum 80 kr. fyrir stóran fisk en síðan sá vinnslan sem hann er í föstum viðskiptum við sér ekki fært að nýta undirmálið sem að öllu jöfnu ætti að vera miklu ódýrara. Það fór á markað og verðið þar var 20% hærra en hann fékk fyrir góðan, stóran fisk. Það væri fróðlegt að fá að heyra afstöðu hæstv. ráðherra um þetta málefni.