132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Ljósmengun.

672. mál
[14:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir hlý svör og björt, þannig að orðin hæfi efninu. Ég spurði í fyrra þann sem þá sat í stól umhverfisráðherra, sem svaraði kannski ekki öðruvísi efnislega en þótti málið hálffáránlegt og hafði engan áhuga á því. En ég sé hins vegar að núverandi hæstv. umhverfisráðherra hefur áhuga á málinu og ég fagna því.

Ég held að kominn sé tími til að undirstofnanir umhverfisráðuneytisins hyggi að þessu máli með rannsókn og athugun og hugsanlegum ráðagerðum í framhaldinu, hvort sem það yrði í formi laga eða a.m.k. einhvers konar leiðbeininga eða reglugerða. Það er rétt hjá hæstv. umhverfisráðherra að einstök sveitarfélög, Hveragerði, Borgarbyggð að ég held örugglega, hafi reynt að sporna við of miklu ljósi. Það hefur auðvitað einkum verið í kringum gróðurhús. Það er stundum þannig, þegar ekið er niður þar sem einu sinni hétu Kambarnir, að manni finnst að það sé geimstöð hinum megin fjallsins en ekki mannabyggð. Það er auðvitað sérstakt vandamál en þetta á ekki eingöngu við þar.

Í fyrra leitaði ég á netinu að því sem þar væri að finna um ljósmengun og sló það orð inn. Mig minnir að ég hafi fundið undir 100 síðum og reyndar ágætar greinar þar, frá Birgi Þórðarsyni og stjörnuskoðunarmönnum á Seltjarnarnesi, Þorsteini Sæmundssyni og fleirum. Ég sló orðinu aftur inn í dag og nú birtist það á 515 síðum. Það bendir til þess að áhugi sé að aukast á þessu efni og kannski vandinn líka.

Ég er með mynd sem ég get ekki sýnt mönnum í Alþingistíðindum eða á netinu. En hún er tekin er af NASA. Ég fann hana á einni af þessum síðum, í grein eftir Birgi Þórðarson. Hún sýnir ljós á Íslandi séð úr gervihnetti. Þar sést að stór svæði á landinu eru þakin ljósi að nóttu til. Ég ætla, ráðherranum til uppörvunar og hvatningar, að gefa honum þessa mynd á eftir.