132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Umferðaröryggi á Kjalarnesi.

680. mál
[14:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um umferðaröryggi á Kjalarnesi. Eins og hv. þingmönnum er ljóst er þjóðvegur 1, þar sem hann liggur um Kjalarnes, einhver fjölfarnasti vegarkafli landsins. Þar er um að ræða þjóðleið milli höfuðborgarsvæðisins og Vestur- og Norðurlands og liggur fyrir að þungi þeirrar umferðar hefur vaxið verulega á undanförnum árum. Kemur þar m.a. til sú þróun að þungaflutningar hafa stöðugt færst í vöxt á undanförnum árum og færst yfir á vegakerfið. Auk þess hefur mikil uppbygging orðið á Vesturlandi, m.a. á Grundartanga, og fjölgun íbúa sem því fylgir hefur leitt til þess að umferð hefur aukist verulega.

Þessi þróun kallar að sjálfsögðu á aðgerðir og uppbyggingu í vegamálum á þessu svæði. En það má einnig nefna að á Kjalarnesi hefur á undanförnum árum byggst upp allfjölmennt íbúðahverfi, Grundarhverfi. Það er að sjálfsögðu mikið hagsmunamál fyrir íbúa þar að samgöngumál séu í lagi, ekki síst með tilliti til umferðaröryggis. Íbúar hafa áhyggjur af þeim þunga sem eru í umferðinni þar og umferðarmagninu. Þeir hafa bent á að nauðsynlegt sé að huga sérstaklega að aðgerðum til að tengja þjóðveginn og íbúahverfið betur en nú er gert.

Hæstv. forseti. Þessu til viðbótar má nefna stærsta umferðarmálið á þessu svæði. Það er að sjálfsögðu lagning Sundabrautar og tenging hennar við Kjalarnes. Það hefur auðvitað legið lengi fyrir, eins og hv. þingmenn vita, að ríkisstjórnin hefur fullan vilja til að hefja verkið en misvísandi yfirlýsingar núverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík, og að því er virðist viljaleysi til að taka af skarið í þessum efnum, er til þess fallið að trufla framgang málsins verulega. Nýlegar yfirlýsingar formanns skipulagsnefndar borgarinnar og borgarstjóraefnis Samfylkingarinnar, Dags B. Eggertssonar, eru þess eðlis að því meira sem hann talar um efnið því erfiðara er að átta sig á því hvað hann vill raunverulega. Ég tel óhjákvæmilegt að nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. samgönguráðherra um viðbrögð hans við yfirlýsingum af hálfu forustumanna R-listans í þessum efnum, um hvaða áhrif þau sjónarmið sem komið hafa fram af þeirra hálfu hafa á áform samgönguyfirvalda að þessu leyti.