132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Umferðaröryggi á Kjalarnesi.

680. mál
[14:08]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson spyr:

„1. Hvaða áform eru uppi af hálfu samgönguyfirvalda um vegabætur í þágu umferðaröryggis á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi?

2. Eru sérstaklega fyrirhugaðar breytingar á vegtengingu við þéttbýlið á Kjalarnesi?

3. Hvenær má vænta framkvæmda við breytingar af þessu tagi?“

Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á því mikilvæga máli sem umferðaröryggi á Kjalarnesi er. Umferðaröryggisaðgerðir í nágrenni við Grundarhverfi eru aðkallandi verkefni sem ég hef kynnt mér sérstaklega. Þess ber að geta að nú þegar hafa verið framkvæmdar tilteknar aðgerðir sem eru í þágu umferðaröryggis á svæðinu.

Til að setja þetta mál í rétt samhengi er nauðsynlegt að halda nokkrum atriðum til haga, sem lúta að legu Vesturlandsvegar um Kjalarnes í tengslum við lagningu Sundabrautar. Sú staða sem uppi er í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar og snýr að legu fyrirhugaðrar Sundabrautar er með miklum ólíkindum. Missiri eftir missiri eru samgönguyfirvöld dregin á svari um hvar Sundabraut megi liggja yfir Kleppsvíkina. Hver afsökunin er nefnd af annarri. Nú síðast á fundi borgarstjórnar í gær hélt Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs borgarinnar, því fram að málið tefjist vegna þess að enn sé óvissa um fulla fjármögnun verksins. Þetta er auðvitað alger firra. Formanni skipulagsráðs væri nær að vinna heimavinnuna sína og fylgjast með því sem er hið sanna og rétta í málinu. Það ætti að nægja honum að fylgjast með fréttum til að hann viti betur. (Gripið fram í.) Raunin er sú að formaðurinn veit betur en kýs að fara með rangt mál í þessu til að fela aðgerðaleysið í eigin ranni. Það er leitt til þess að vita að hugtakið „dagsatt“ fái nýja og miður góða merkingu þessa dagana.

Rétt er að minna á í þessu sambandi, ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar vildu gefa mér hljóð, að það er formaður skipulagsráðs ... (BjörgvS: Þetta er bara dapurlegt hjá þér, að veitast að fjarstöddum manni.) (Forseti hringir.) Því miður var ég ekki í borgarstjórnarsalnum í gær þar sem þetta var til umræðu. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) En rétt er að minnast á í þessu sambandi að það er formaður skipulagsráðs, Dagur B. Eggertsson, (Gripið fram í.) sem er sá eini sem heldur þeirri skoðun á lofti að það eigi að kjósa sérstaklega um legu Sundabrautarinnar. Ekki verður það til að flýta framkvæmdum heldur miklu frekar til að losna við að taka ákvörðun um málið sem kjörnir borgarfulltrúar eiga að sjálfsögðu að gera. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa borgarinnar að taka ákvörðun um þetta mál. Það er kominn tími til að þeir geri það.

Þar sem Reykjavíkurborg hefur dregið þessa ákvörðun út í hið óendanlega þannig að ekki er unnt að hefja verkhönnun, sem er undanfari útboðs, tel ég óhjákvæmilegt að láta kanna það af fullri alvöru hvort ekki sé rétt að hefja framkvæmdir við Sundabraut að norðanverðu. Með því væri verkið tekið úr þeirri gíslingu sem það er í í dag. Ég sé fyrir mér að kannað verði að hefjast handa við framkvæmdir með breikkun vegarins á Kjalarnesi milli syðri gangamunna Hvalfjarðarganga að þeim stað þar sem fyrirhugað er að Sundabraut þveri Kollafjörð. Með þeirri aðgerð væri umferðaröryggismálum á Kjalarnesi og í nágrenni Grundarhverfis komið í gott horf. Tengingar við hverfið og milli svæða þess yrðu með besta móti og fyllsta umferðaröryggis gætt, eins og að sjálfsögðu er stefnt að. Verði þetta niðurstaðan mun þessi hluti framkvæmdanna koma inn í endurskoðaða vegáætlun fyrir árin 2007–2010 og tel ég ekkert því til fyrirstöðu að framkvæmdir eigi sér stað á fyrri hluta þess tímabils og gætu hafist á næsta ári í þágu umferðaröryggis á þessu svæði.