132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:08]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér er á ferðinni frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Það bráðliggur á frumvarpinu að mati hæstv. fjármálaráðherra og leitað er afbrigða um málið. Svo mikið liggur við.

Ég tek undir hvert orð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um afstöðu okkar Vinstri grænna til málsins en ég vil líka benda á að það bráðliggur á á fleiri stöðum en gagnvart fyrirtækjum sem búa við óvænta sveiflu í gengi sem orðið hefur núna. Það er fleira sem hefur sveiflast á síðustu árum en bara gengið á þessum síðustu mánuðum og almenningi í landinu bráðliggur á leiðréttingu vegna þeirra sveiflna. Það bráðliggur á að leiðrétta efnahagslíf fjölskyldna í landinu. Ég vil nefna eitt dæmi um það.

Á árinu 2001 varð veruleg hækkun á fasteignamati íbúða í kjölfar heildarendurmats Fasteignamats ríkisins á íbúðum að fyrirmælum Geirs H. Haardes, formanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra. Sú endurskoðun á árinu 2001 leiddi til þess að fjölmargir ellilífeyrisþegar, einstæðar mæður, verkafólk og fleiri greiddu eignarskatta í fyrsta skipti á ævinni, árið 2002 af skuldlausum 2–4 herbergja íbúðum. Þetta hefur verið leiðrétt með niðurfellingu eignarskatta en þetta var samt staðreynd. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins lagði í fyrsta skipti á þessa hópa eignarskatta árið 2002. (Gripið fram í: Og afnam svo eignarskattinn.) Því hef ég haldið til haga, hv. þingmaður.

Að sama skapi blasti það við á árinu 2005 að veruleg hækkun á verði íbúða frá haustmánuðum 2004, sem ekki sá þá fyrir endann á, gæti haft afdrifaríkar afleiðingar á efnahagslíf heimilanna í landinu, fjölskyldnanna í landinu. Hækkað fasteignamat, fasteignagjöld og haft þau skerðingaráhrif að útiloka fjölda fjölskyldna, sérstaklega ungra íbúðarkaupenda, frá vaxtabótum eða skert þær mjög verulega.

Í umræðum í fyrra um tekjustofna sveitarfélaga gerði ég þetta að umtalsefni og spurði þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra hvort ríkisstjórnin væri tilbúin til að aftengja það sem ég kallaði tifandi tímasprengju í efnahag fjölskyldna í landinu. Tímasprengju væntanlegra hækkana á fasteignamati og ósanngjarnar skattheimtu og misskiptingar. Hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra sagði einfaldlega að það væri sér ekki að skapi að gera þær leiðréttingar.

Við árvissa framtalsgerð mína fyrir félagsmenn í stéttarfélaginu Eflingu nú í mars hef ég upplifað afar dapurlegar afleiðingar hækkunar á fasteignamati fyrir árið 2006. Hverjar skyldu þær vera? Jú, ótal íbúðareigendur, að mestu leyti ungt fólk sem hefur á síðustu árum keypt sína fyrstu íbúð, þurfa við álagningu á komandi sumri að þola það að vaxtabætur þeirra falla niður eða eru skertar verulega þannig að það hefur veruleg áhrif á efnahag þeirra fjölskyldna og heimila. Það setur fjárhagsáætlun þeirra og íbúðarkaup í uppnám. Hæstv. fjármálaráðherra, reikningsdæmið er einfalt. Vaxtabætur byrja að skerðast ef eignir einstaklinga umfram skuldir nema rúmum 3,7 millj. kr. og falla niður ef hrein eign nær rúmum 5,9 millj. kr. Sambærilegar tölur fyrir hjón eru 6,1 milljón og 9,8 milljónir. Þessar skerðingartölur, hæstv. fjármálaráðherra, voru ekki einu sinni hækkaðar í takt við verðbólgu við skattmat árið 2006. Það er mér óskiljanlegt og ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Af hverju voru þessar skerðingartölur ekki hækkaðar eins og aðrar skattviðmiðunartölur?

Á sama tíma og þetta gerist hækkaði fasteignamat í Reykjavík um tugi prósenta og í nágrannabyggðarlögum. Ég ætla að nefna tvö tilvik um þessar skerðingar. Fyrra tilvikið varðar þrítuga einstæða móður með tvö börn. Hún skuldaði tæpar 11 milljónir í árslok 2004, átti íbúð að fasteignamati 14,6 millj. kr. og greiddi rúmar 500 þús. kr. í vaxtagjöld. Hún fékk fullar vaxtabætur árið 2005 eða 207 þús. kr. Hún skuldaði jafnmikið í árslok 2005, greiddi nánast sömu vaxtagjöld en fasteignamat á íbúð hennar hækkaði um 4,1 milljón á milli ára.

Hún fær engar vaxtabætur við álagningu árið 2006 þar sem hrein eign hefur hækkað með einu pennastriki úr 3,6 millj. í 7,7 millj. Bágborinn efnahagur þessarar einstæðu móður og tekjur hennar hafa ekkert breyst milli ára.

Hitt dæmið varðar tæplega fimmtugan einstakling sem fékk í vaxtabætur í fyrra 152.539 kr. greiddar út við álagningu 2005 en fær engar 2006. Það skýrist af því að fasteignamat á íbúð hans hefur hækkað úr 11,3 millj. árið 2005 í 15,1 millj. árið 2006 en tekjur og fjárhagsstaða hafa ekkert breyst á milli ára. Þessi pennastriksaðferð ríkisstjórnarinnar og þessi aðför hefur kostað það að þúsundir fjölskyldna í Reykjavík og á landinu verða af vaxtabótum eða þær skerðast mjög verulega. Ég hef orðað það þannig í blaðagrein að ríkisstjórnin hafi rústað vaxtabótakerfinu, þetta séu afleiðingar efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á heimilin í landinu. Í þessari blaðagrein skoraði ég á ríkisstjórnina að aðhafast eitthvað í málinu, en það hefur ekkert gerst. Þetta hefur afar dapurleg áhrif fyrir heimilin í landinu, fyrir venjulegt fólk. Hér er atvinnulífinu komið til hjálpar sem er dæmigert fyrir ríkisstjórnina. Hagstjórnin nær til þess, hún nær til auðmanna, hátekjumanna og stóreignamanna en ekki til venjulegs fólks.

Það sem ég kalla aðför ríkisstjórnarinnar, þ.e. Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að rétti íbúðareigenda til vaxtabóta er með öllu óverjandi. En jafnt eins og í þessu máli sem hér er mælt fyrir um getur ríkisstjórnin jafnfyrirhafnarlítið gert bragarbót. Hún getur hækkað skerðingarfjárhæð nettóeigna í takt við hækkun fasteignamats og tryggt þeim einstaklingum sem ég hef nefnt til sögunnar og þúsundum framteljenda vaxtabætur og réttlæti.

Það er rétt að taka það fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn að Reykjavíkurlistinn, R-listinn í Reykjavík, sá til þess að álagningarhlutfall fasteignagjalda við álagningu 2006 var lækkað í takt við breytingar á fasteignamati þannig að Reykvíkingar borga ekki hærri fasteignagjöld í ár en nemur hækkun á verðbólgu á milli ára og maður spyr sig nú: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Þarna er brýnn vandi alveg eins og út af sveiflum á genginu. Ætlar hún að gera eitthvað? Ég skal samþykkja afbrigði hvenær sem er til þessa máls. Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að taka jafnrösklega til hendinni þar þannig að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn standi undir loforðum sem þeir hafa gefið Reykvíkingum?

Í heilsíðuauglýsingu Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar undir fyrirsögninni „Tími til að lifa“ segir að reykvískar fjölskyldur eigi aðeins það besta skilið. Með það að leiðarljósi setur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík fram, á heilli blaðsíðu, metnaðarfullar hugmyndir til að tryggja að hér verði hægt að búa í betri fjölskylduborg. Á sama tíma er Sjálfstæðisflokkurinn að skerða eða fella niður vaxtabætur af einstæðum foreldrum, einstaklingum og ungu fólki. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík, flokkur athafnastjórnmálamanna sem stunda athafnastjórnmál, segir í auglýsingu undir fyrirsögninni Athafnastjórnmál: „Við erum hins vegar athafnastjórnmálamenn. Við höfum lausnir, við framkvæmum.“ Hvernig birtist þetta almenningi í landinu? Jú, athafnir Framsóknarflokksins, athafnastjórnmálamannanna í Reykjavík og annars staðar, bitna á ungu fólki, bitna á fjölskyldum. (Gripið fram í.) Síðan auglýsir Framsóknarflokkurinn líka fjölskylduhátíð um helgina: „Ertu með á fjölskylduhátíð?“ Ég ætla bara rétt að segja fólki í landinu og þingmönnum að það er engin fjölskylduhátíð á Alþingi hjá Framsóknarflokknum. Þvert á móti. Þar rekur hverja aðförina á fætur aðra á almenning, launamenn, ungt fólk. Þetta eru skrumauglýsingar og í gegnum þessar skrumauglýsingar vona ég að fólk sjái, kjósendur í kosningunum í vor.

Er það fjölskylduvæn pólitík Sjálfstæðisflokksins og athafnastjórnmál Framsóknarflokksins að rústa vaxtabótakerfinu? Hvers konar rugl er þetta? Almenningur sér í gegnum þetta. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að leiðrétta hlut íbúðarkaupenda og framteljenda. Ég skora á hann af einlægni og ég höfða til réttlætiskenndar hans.