132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[23:28]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Frú forseti. Þessi umræða hefur verið á margan hátt upplýsandi og í rauninni tel ég að fram séu komin full rök fyrir því að sú leið sem boðuð er í frumvarpinu er mjög varhugaverð. Ég fagna sérstaklega afstöðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz, formanns heilbrigðis- og trygginganefndar, því hún hefur tekið undir mörg þau rök sem hérna hafa komið fram í kvöld og hún segir Framsóknarflokkinn hafna því að hafa tvöfalt kerfi en það tilvísunarkerfi sem hérna er komið á er að hluta til tvöfalt fyrir ýmsa þá sem þurfa að nota það og ég vona svo sannarlega að hún komi þeim sjónarmiðum sínum á framfæri við hæstv. heilbrigðisráðherra og leggist á eitt með okkur til að þetta nái ekki fram að ganga í þessari mynd.

Það vill svo til að ég hitti daglega fjölmarga hjartasjúklinga í starfi mínu. Þeir eru að koma á skrifstofu Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga og fara yfir sín mál. Þetta eru kannski fyrst og fremst tvenns konar saga sem þeir hafa að segja. Annars vegar eru endurhæfðir hjartasjúklingar sem hafa búið við þennan sjúkdóm, þekkja hann hvað þá sjálfa varðar og eiga yfirleitt heimsókn hjá hjartalækninum sínum á 8–12 mánaða fresti.

Annars vegar eru það endurhæfðir hjartasjúklingar sem hafa búið við þennan sjúkdóm, þekkja hann hvað þá sjálfa varðar og eiga yfirleitt heimsókn hjá hjartalækninum sínum á 8–12 mánaða fresti. Þeir vita sem er að þeir þurfa að hitta hjartalækni, það er alveg óhjákvæmilegt vegna þess að hann þekkir sjúkrasöguna, hann þekkir einkennin, hann getur farið yfir stöðu þeirra, hann getur farið yfir málin og sagt þeim hvers er þörf. Það er ekki nokkur spurning, sem kom fram í umræðunni í kvöld, að margir fleiri en hjartalæknar geta tekið hjartalínurit. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að sérfræðingur sem annast hefur sjúkling árum saman fái að fylgjast með honum og það er vitað að það mun verða leitað eftir því. Og það að neyða þennan einstakling til að fara fyrst til heimilislæknis til að leita eftir tilvísun, sem oft og tíðum fæst en ekki endilega alltaf, eykur kostnað. Og þrátt fyrir að fjármálaráðuneytið segi að ekki sé gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem nú er, ég efast ekki um að það mat sé rétt, þá verða útgjöldin meiri. Þau lenda bara á sjúklingum, oft og tíðum sjúklingum sem hafa ekki allt of mikil efni.

Hinn hópurinn sem kemur á skrifstofu Hjartaheilla er aftur fólk sem hefur grun um að það eigi við hjartakvilla að stríða og spyr: Hvað á að gera? Hvert á ég að fara? Hvert á ég að snúa mér? Venjulega fær það fólk margs konar ráðgjöf. Því er ekki að neita, án þess að mér detti í hug að leggja illt orð til þeirra ungu og efnilegu lækna sem eru á bráðadeild Landspítalans eða heimilislækna sem eru mjög margir færir í sínu starfi, að við fáum oft sögur af því, og þær eru sannar, að læknar, ýmist heimilislæknar eða sérfræðingar, hafa vísað fólki frá með alvarlegar kransæðaþrengingar vegna þess að þær koma ekki alltaf fram í hjartalínuriti, á blóðþrýstingsmæli eða í kólesterólmælingu. Fleira þarf að koma til og ég þekki dæmi um að menn hafi verið meðhöndlaðir við bakflæði með tilheyrandi speglunum og meðulum jafnvel svo mánuðum skiptir. Þeir hafa verið sendir heim með vöðvaslakandi lyf o.s.frv. Það er vegna þess að kransæðaþrengingar eru mjög óræður sjúkdómur, það er mjög erfitt að greina hann á vissum stigum.

Ég vil vekja athygli á því hér að einn sjúklingur með kransæðaþrengingar sem fær greiningu á sínu ástandi og fær lækningu og bót sinna meina getur sparað hinu opinbera gífurlegar fjárhæðir því að nái sjúkdómurinn að þróast í þá átt að viðkomandi fær áfall, verður fyrir hjartaskemmdum ef hann er þá svo heppinn að deyja ekki, þarf hann að fara í gegnum mjög dýra og tímafreka endurhæfingu á vegum heilbrigðiskerfisins.

Morgunblaðið fjallaði í gær nokkuð um þá deilu sem staðið hefur. Nú veit ég ekki, hæstv. heilbrigðisráðherra getur vafalaust upplýst um það, hvort þessir þrír mánuðir hafa verið notaðir til samninga, þ.e. uppsagnartíminn og þar til uppsagnirnar tóku gildi, en að sögn forsvarsmanna hjartalækna hafa engir samningafundir verið boðaðir þann mánuð sem er frá 1. apríl eða í rúman mánuð. Ég hef engar upplýsingar um annað en það sé rétt.

Mig langar til að vitna aðeins í mann sem þekkir kannski málefni hjartasjúklinga öðrum betur að undanskildum hjartalæknum og þeim sérfræðingum sem fjalla um þau. Það er framkvæmdastjóri Hjartaheillar, Ásgeir Þór Árnason. Hann tekur á móti miklum fjölda fólks sem leitar til hans um ráðgjöf og um aðgerðir og hann hefur mjög oft þurft að grípa til ráða. Ég ætla að lesa það sem hann segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Undir þetta tekur Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheillar, og segist finna fyrir mikilli óánægju með nýja tilvísunarkerfið þar sem það kosti sjúklinga mun meiri tíma, fyrirhöfn og fjármuni. Einnig segist hann vita þess dæmi að fólki hafi verið neitað um tilvísun af heimilislækni sínum. Aðaláhyggjurnar segist Ásgeir samt hafa af því að með nýja tilvísunarkerfinu sé ekki hægt að bregðast jafnskjótt við og áður, sem geti skipt sköpum. Bendir hann á að hjá Hjartaheill hafi ávallt verið hægt að útvega einstaklingum með brjóstverki tíma hjá hjartalækni ýmist samdægurs eða í mesta lagi innan tveggja daga frá því leitað er til þeirra.“

Ásgeir bendir einnig á að hann hafi áhyggjur af því að oft og tíðum sé nokkurra daga bið eftir því einu að fá tíma hjá heimilislækni eða á heilsugæslu og þá á eftir að fá tilvísunina og tíma hjá hjartalæknum að því búnu.

„„Að mínu mati er verið að tefla á tæpasta vað og það stríðir að mínu viti gegn því góða heilbrigðiskerfi sem við viljum státa af. Þarna er verið að stefna inn á stórhættulegar brautir,“ segir Ásgeir og tekur fram að félagið hafi í byrjun mánaðar óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða stöðu mála, en að þeirri beiðni hafi enn ekki verið svarað.“

Hann segir að lokum:

„Við erum að horfa á deilu sem varðar á bilinu 14–16 milljónir króna á ári. Ef því er deilt niður á félagsmenn Hjartaheillar, sem eru fjögur þúsund, gera það innan við fjögur þúsund krónur á hvern sjúkling. En hver einasti sjúklingur sem ekki þarf að fara í aðgerð sparar hinu opinbera hins vegar langtum hærri upphæðir.“

Þessu kom ég einmitt að hér áðan.

Hv. þm. Ásta Möller sagði, og undir það tók hv. þm. Pétur H. Blöndal:

„Upphæð fer eftir því hvaða leið sjúklingur kýs að fara.“

Ég hjó sérstaklega eftir þessu þar sem í raun er verið að segja að þeir sem hafa næga peninga geti farið fram hjá þessu kerfi og beint til hjartalæknisins, sem er alveg rétt. En ég spyr: Eiga allir val? Er það svo að allir eigi peninga til að geta valið þá leið sem þeir kjósa að fara. Þetta er ekki bara spurning um það að kjósa að fara einhverja leið, þetta er líka spurning um að hafa efni á því. Það skiptir verulegu máli.

Hv. þm. Ásta Möller sagði einnig að þetta tilvísunarkerfi gæti valdið einhverjum óþægindum. Mér finnst það ansi létt á málum tekið. Hv. þm. Ásta Möller sagði í ræðu sinni að þetta væri tímabundið tilvísunarkerfi og þá leyfi ég mér að vitna aftur í fyrrgreint Morgunblaðsviðtal þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„„Það var haldinn fundur daginn áður en við gengum af samningum og þar kynnti ráðherra þetta tilvísunarkerfi með þeim orðum að ef það kæmist á væri það komið til að vera,“ segir Þórarinn Guðnason, formaður Félags sjálfstætt starfandi hjartalækna.“

Mér finnst reyndar að það þurfi ekki að vitna í þessi ummæli hans vegna þess að ég get ekki skilið þetta frumvarp öðruvísi en það sé einmitt merki um að verið sé að festa þetta tilvísunarkerfi með lagahliðinni og það sé komið til að vera.

Ég vil að lokum hvetja hæstv. ráðherra til að gera allt sem unnt er til að ná samningum við hjartalækna og fella fyrrnefnda reglugerð úr gildi. Ég skil ekki af hverju þörf er talin á að festa þetta svona í lög eins og hér er verið að gera.