132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[14:01]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Gjöld samkvæmt þessu frumvarpi eða lögum um olíu- og kílómetragjald munu líklega hækka um 800 millj. á þessu ári vegna hækkunar á verði olíu frá áramótum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að 4,5% af þessu gjaldi renni til almenningssamgangna og til að auka hlut vistvænna orkugjafa í samgöngum. Þetta er í krónum talið rétt liðlega 200 millj. miðað við fjárlög. Það er brýn nauðsyn að bregðast við hækkuðu olíuverði með þaulskipulögðum, aðgengilegum og góðum almenningssamgöngum og vistvænum sjálfbærum samgöngum, draga úr einkabílisma og olíusóun. (Gripið fram í.) Það er í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar, hv. þingmaður. Ég segi já í trausti þess að tillagan verði samþykkt og að lokum, frú forseti, ég vil óska þingmönnum og starfsmönnum þingsins gleðilegs sumars og þakka fyrir samstarfið.