132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:47]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason minntist í niðurlagi ræðu sinnar á Reykjavíkurflugvöll og framtíð hans og tvinnaði það saman við þá umræðu sem hér á sér stað um framtíðartilhögun varðandi rekstur Keflavíkurflugvallar.

Mér datt í hug að koma hér upp og spyrja hv. þingmann, af því að mér heyrðist hann vera að tala um að ef við kæmumst að þeirri niðurstöðu að hætta rekstri flugvallarins í Vatnsmýri væri ekki annað að gera en fara með hann til Keflavíkur, hvort hann sé andvígur því sem hið svokallaða exbé-framboð í Reykjavíkurborg hefur sett fram og talað um, þ.e. hina miklu þjóðarsátt um flugvöll á þekktum rauðmagamiðum á Lönguskerjum í Skerjafirði. Ber að skilja það svo að exbé-framboðið í borginni hafi ekki stuðning Framsóknarflokksins í því máli, í þeirri miklu þjóðarsátt? Því hér talaði náttúrlega hvorki meira né minna en þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Ég held að við verðum að fá hreinar og skýrar línur í þetta, virðulegi forseti, því að hér er að sjálfsögðu um mjög svo mikilvægt mál að ræða, þ.e. hvort við ætlum að búa til nýjan flugvöll á rauðmagamiðum í Skerjafirði, á Lönguskerjum, eða hvort exbé eigi að fylgja Framsóknarflokknum að málum, eins og ég skil það, og fara frekar með innanlandsflugið til Keflavíkur.