132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:50]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þingmaður er kominn í framboð til sveitarstjórnar á hann að vita að sjálfstæði sveitarstjórnarstigsins og sveitarstjórnarmanna er mikilvægt.

Það er rétt að exbé-framboðið, framsóknarmenn í Reykjavík, hefur bent á það sem leið að færa innanlandsflugið út á Löngusker og hefur boðað það sem þjóðarsátt og vill leggja í vinnu við það. Ég fagna því að menn skuli vilja leita eftir þjóðarsátt.

Ég hef hins vegar sjálfur lýst þeirri skoðun minni, og ég velti því upp í umræðunni áðan, að ef sú staða kemur upp sem borgarfulltrúar í Reykjavík, eins og margir frambjóðenda, líklega úr öllum flokkum nema flokki hv. þingmanns, hafa lýst yfir að flugvöllurinn skuli úr Vatnsmýrinni, þá verðum við sem þjóð að svara því hvernig við ætlum að tryggja innanlandsflugið. Ætlum við að gera það með því að byggja nýjan flugvöll á Lönguskerjum eða einhvers staðar upp til heiða, á Mosfellsheiðinni eða annars staðar, það mun kosta 10–12 milljarða að lágmarki, á sama tíma og við höfum flugvöll í u.þ.b. 40 kílómetra fjarlægð í loftlínu og erum að bæta samgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja? Þetta eru þetta allt möguleikar sem við hljótum að skoða.

Ég lít svo á að félagar mínir, framsóknarmenn í Reykjavík, séu að draga fram Lönguskerjaleiðina sem einn valkost og athuga hvort ná megi þjóðarsátt um hana. Ég hef sjálfur sagt, og það á ekkert að koma hv. þingmönnum á óvart, að ég hef efasemdir um þá leið vegna þess ég held að hún sé dýrari en sú leið sem mér hugnast.