132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:44]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég hef lagt áherslu á í mínu máli varðandi starfsmennina er sú staða sem við erum í í dag. Hún gefur ekkert tilefni til þess að menn fari að sletta fram loforðum um stóra starfslokasamninga þegar upp er staðið og í ljós kemur hvernig fer með framtíð þeirra starfsmanna sem þarna eru. Verkefnið er að færa þá frá varnarliðinu yfir til íslenskra stjórnvalda og reyna að búa þannig um hnútana að allir fái starf við hæfi, að þeir sem þarna starfa í dag geti starfað áfram við völlinn, og koma á nýju skipulagi á vallarsvæðinu sem getur gilt til framtíðar. Þegar þessu öllu er lokið kemur í ljós hver staða þeirra starfsmanna sem eru þarna í dag er. Komi þá í ljós að einhverjir starfsmenn sem starfa á vellinum fá þar ekki starf til frambúðar getur þá ekki verið, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að það kunni að vera verðmætara fyrir þá að gripið verði til aðgerða sem tryggja þeim annað framtíðarstarf frekar en að vera núna að lofa einhverjum feitum starfslokagreiðslum? Mér finnst þetta algerlega ótímabær umræða og hún á ekkert erindi vegna þess frumvarps sem hér liggur fyrir á þinginu. Mér finnst það líka ósanngjarnt í ljósi þess hvernig stjórnvöld hafa talað vegna þeirrar óvissu sem starfsmenn á vellinum hafa búið við. Stjórnvöld hafa talað algerlega tæpitungulaust um það að sérstaklega verði horft til hagsmuna starfsmanna og allt gert í hvívetna til að tryggja stöðu þeirra til framtíðar. Það er engin ástæða til að efast um vilja stjórnvalda til að huga að þeirra málum. Í dag er hins vegar ekki tíminn til að fara að lofa stórum starfslokasamningum.