132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:58]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka iðnaðarnefnd fyrir að hafa afgreitt þetta ágæta mál frá nefndinni og við megum þá eiga von á að fá það til umfjöllunar í þingsal fljótlega. Staðreyndin er sú að hér er um mjög mikið framfaramál að ræða sem skiptir miklu máli, ekki síst fyrir landsbyggðina vegna þess að þetta gefur okkur tækifæri til að efla mjög þekkingariðnað á landsbyggðinni og þekkingarsetur víða um land. Ég hef orðið mjög vör við það á ferðum mínum núna um landið í aðdraganda kosninga að mjög margir bíða eftir því að málið verði að lögum.

Mér þykir það leitt ef eitthvað sem gerðist í nefndinni í gær hefur orðið til þess að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tekið afstöðu gegn málinu því að við 1. umr. var ekki að heyra að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu tekið ákvörðun um að vera á móti því. Þeir voru frekar opnir fyrir því að vilja standa að málinu þó að ekki hafi verið gefin nein loforð að sjálfsögðu um það.

Hvað varðar þær umsagnir sem hafa borist getum við sjálfsagt rætt þær við 2. umr. en þær eru mjög margar á misskilningi byggðar og hægt að skýra það allt saman í umræðunni. Það hefði verið hægt að gera ef hv. þingmenn hefðu dokað aðeins lengur við og hlýtt á skýringar ráðuneytisfólks í gær sem hefði verið tilbúið til að útskýra það allt saman betur.

Í stuttu máli sagt finnst mér að hv. þingmenn séu með óþarflega stór orð uppi um málið og um þessi vinnubrögð. Mér þykir leitt að þingið skuli hefjast með þessum hætti vegna þess að ég hef mikla sannfæringu í málinu, að mikilvægt framfaraskref verði stigið með því. Það að byggðamálin, eins og sagt er, séu felld saman við tæknirannsóknir, þá er það nú þannig að (Forseti hringir.) Byggðastofnun er fyrst og fremst að tala um atvinnuþróunarmál. (Forseti hringir.) Og þetta eru atvinnuþróunarmál sem varða bæði landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið, ein stefna á öllu landinu.