132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[19:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við höfum í langri og yfirgripsmikilli ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar heyrt greinargott og málefnalegt yfirlit yfir það hvernig málinu reiddi af hjá hv. menntamálanefnd eftir 2. umr. og það vita allir sem til þekkja á hv. Alþingi að það er ekki alvanalegt að mál séu tekin inn í nefndir aftur á milli 2. og 3. umr. en það gerist þó þegar um er að ræða mál sem eru vanreifuð, illa unnin eða um stendur gríðarlegur ágreiningur. Allt þetta þrennt á við um þetta mál sem sjá má af málflutningi nefndarmanna í minni hluta menntamálanefndar og nefndarálitum sem hefur verið skilað af minni hlutanum bæði eftir 2. umr. og nú eftir 3. umr. Í báðum þessum nefndarálitum er lagt til að málinu verði vísað frá og það segir sína sögu um sjónarmið minni hlutans. Mig langar í upphafi máls míns að vitna í nefndarálitið þó að hv. þm. Mörður Árnason hafi farið vel yfir það því að mér finnst það vera afar mikilvægt að það sé alveg skýrt fyrir þingheimi og þjóðinni, sem hlýðir á mál okkar úr þessum opna ræðustóli, hvaða augum við hv. þingmenn í minni hluta menntamálanefndar lítum þetta mál. Upphaf þessa framhaldsnefndarálits minni hlutans er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá því stjórnarflokkarnir settu sér að breyta lögunum um Ríkisútvarpið hafa vinnubrögð verið á eina lund. Frumvarpstextar hafa verið undirbúnir í leynd hjá sérstökum trúnaðarmönnum flokkanna og upplýsingum haldið frá almenningi, fjölmiðlum, starfsmönnum Ríkisútvarpsins og þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Í stað þess að efna til almennrar umræðu um Ríkisútvarpið og reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um framtíðarskipan þess hafa forustumenn stjórnarflokkanna sammælst um tillögur sem einkennast annars vegar af kreddu og hins vegar hrossakaupum, án þess að vart verði grundvallarstefnu um hlutverk Ríkisútvarpsins og stöðu þess á fjölmiðlavettvangi.“

Þó að ég hafi ekki setið í nefndinni, frú forseti, eftir að málið var tekið inn í hana milli 2. og 3. umr., heldur varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Atli Gíslason, vil ég taka fram að ég er hjartanlega sammála því sem stendur í þessu áliti. Þessi lykilorð, kredda og hrossakaup, eiga afar vel við þegar fjallað er um þetta mál.

Ég hef haldið því fram úr þessum ræðustóli áður og legg á það áherslu í máli mínu hér að ríkisstjórnarflokkunum hefði verið í lófa lagið að ná sátt um málið eða vinna það alla vega lengra í átt til sáttar ef beitt hefði verið þeim aðferðum sem beitt var eftir reyndar mjög erfiðan og árangurslítinn leiðangur ríkisstjórnarflokkanna í þá átt að koma hér á með valdi og offorsi almennum fjölmiðlalögum. Þá var svo sem menn muna, eftir þann ömurlega leiðangur sem endaði úti í miðri á, ákveðið að setja fjölmiðlamálin almennt í nefnd sem væri þverpólitísk og fengi tíma og svigrúm til að starfa. Sú nefnd skilaði, svo sem kunnugt er, skýrslu mikilli sem var síðan fengin í hendur lögfróðra manna sem sömdu frumvarp á grundvelli hennar. Nú liggur fyrir í þingsölum frumvarp sem byggist á þessari skýrslu og ekki er annað að sjá en nokkuð góð sátt sé um það. Það frumvarp var unnið á faglegum forsendum fyrir opnum tjöldum þar sem niðurstaða nefndarinnar var kynnt áður en frumvarpsdrög voru síðan samin og frumvarp leit dagsins ljós.

Mín skoðun er sú að hæstv. menntamálaráðherra væri maður að meiri ef farin hefði verið svipuð leið með Ríkisútvarpið. En við sem sitjum í þessum sal vitum að árum saman hefur Sjálfstæðisflokkurinn stefnt að því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og selja það, og mér liggur við að segja áratugum saman því auðvitað má rekja þá umræðu aftur á 9. áratuginn með því að lesa ályktanir og yfirlýsingar frá þeim flokki. Það má ímynda sér að menn hafi kannski haldið að um þessa framkvæmd Sjálfstæðisflokksins væri svo mikill ágreiningur að það þýddi ekkert að setja málið í málefnalega vinnu nefndar sem starfaði fyrir opnum tjöldum, starfaði faglega að málinu og það var það sem hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin öll virðist hafa álitið. En það er einu sinni svo að þegar fólk sest niður, jafnvel þó það hafi ólík sjónarmið, andstæðar skoðanir í stjórnmálum, þá er með ólíkindum hvað hægt er að ná langt í átt til sátta með málamiðlunum sem eru skynsamlegar, rökstuddar og vel undirbyggðar.

Við á þessari löggjafarsamkundu getum borið okkur saman við löggjafarsamkundurnar á Norðurlöndunum hvað þetta varðar og þá er samanburðurinn sannast sagna afar óhagstæður fyrir okkur. Á Norðurlöndunum starfa þingin þannig að mál, sérstaklega mál sem mikill ágreiningur er um, eru vel undirbúin og þeim fylgja gjarnan inn í þingsali heilu doðrantarnir af efni. Oft og tíðum eru þær skýrslur sem fylgja málunum unnar af þverpólitískum nefndum eða þá, sem líka er upp á teningnum, að málin fara inn í þingnefndirnar sem eru þá opnar fyrir fjölmiðlum. Opnað er fyrir hin pólitísku átök þar sem ekki eru þá í þingsalnum heldur á vettvangi fagnefndarinnar þar sem fólk hefur yfirgripsmikla þekkingu á þeim málum sem fjallað er um. Þar er, ef svo má að orði komast, hinn pólitíski slagur tekinn.

Hjá þeim stjórnmálaflokkum sem hér ráða lögum og lofum, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, er það hins vegar lenska að mál eru sett inn í þingið, vanreifuð, illa samin og menn vita að um þau verður bullandi ágreiningur. Ekki er gerð tilraun til að ná sáttum, ekki gerð tilraun til að lægja þær öldur sem hafa risið eða munu fyrirsjáanlega rísa um málið heldur setja menn undir sig hausinn, bíta á jaxlinn og keyra það í tuddaskap í gegnum 1. umr. Tuddaskapurinn heldur svo iðulega áfram í nefndunum sem eru lokaðar fyrir fjölmiðlum. — Við ættum kannski að athuga hvort ekki mætti fara að breyta eða viðhafa einhver önnur vinnubrögð í nefndunum til að við ættum möguleika á að ná lengra í átt til sátta í nefndarstarfinu. — Þetta mál var rifið í bullandi ágreiningi úr nefndinni. Þó að mikið hefði verið fjallað um það, margir fundir haldnir og fjöldinn allur af gestum gengið inn var samt sem áður mikill ágreiningur um málið þegar það var tekið út eftir fyrstu atrennu í nefndinni.

Þar stóðu út af nokkrir veigamiklir þættir sem ekki hafði gefist tóm til að ræða, m.a. nefskatturinn, skattlagningin og breytingin á afnotagjöldunum í nefskatt og sömuleiðis aðkoma Ríkisendurskoðunar sem eftirlitsstofnunar fyrir þetta væntanlega hlutafélag, og reyndar má nefna fleiri mál. Hv. þm. Mörður Árnason hefur farið rækilega yfir það á hvern hátt Evrópusáttmálarnir eða Evrópusamningarnir hafa komið inn í þessa umræðu og það var eitt af því sem við töldum að hefði mátt ræða betur og hefði átt að varpa sterkara ljósi á í 1. umr. í nefndinni en gert var. Málið var sem sagt í ágreiningi tekið út úr nefndinni. Hvernig var 2. umr. um það? Hún var löng og ströng og í henni mikil átök, stórar yfirlýsingar, miklar og alvarlegar ásakanir. Hvað gerði meiri hlutinn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur? Þeir héldu áfram að bíta á jaxlinn, setja undir sig hausinn og héldu tuddaskapnum áfram þó að þeir hafi ekki getað komið í veg fyrir að málið yrði tekið inn í nefndina eftir 2. umr.

Þar komu mjög athyglisverðir hlutir í ljós og nú skal það tekið fram, frú forseti, að ég sat ekki í nefndinni á þeim tíma. Ég tók ekki þátt í nefndarvinnunni milli 2. og 3. umr. heldur varaþingmaður minn, Atli Gíslason, eins og ég gat um í upphafi máls míns. En þar voru lögð fram ýmis gögn sem búið er að vitna til í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar, m.a. minnisblað varðandi félagaform sem til greina kom við skipulagsbreytingar á rekstri Ríkisútvarpsins. Einnig var talað við höfunda fjölmiðlafrumvarpsins, sem í millitíðinni hafði litið dagsins ljós, þess frumvarps sem fjallar um fjölmiðla almennt. Af því að ég átti sæti í þeirri nefnd óskaði ég eftir því á sínum tíma, og hafði töluverðan stuðning við það sjónarmið mitt, að eftir árangurinn af því starfi yrði haldið áfram á sömu braut og málefni Ríkisútvarpsins yrðu sett í nefndina, sem þá yrði almenn fjölmiðlanefnd. Á það var ekki hlustað. Svo kemur náttúrlega í ljós þegar fjölmiðlanefndin hefur skilað af sér, og þegar frumvarp lítur dagsins ljós á grundvelli tillagna fjölmiðlanefndarinnar, að lögspekingar benda á það í fjölmiðlum að þar séu ákvæði sem standist varla jafnræðisreglu. Var þar fyrst og fremst átt við ákvæðið um að undanskilja Ríkisútvarpið eignarhaldsákvæðum þessa nýja fjölmiðlafrumvarps.

Fjölmiðlar sögðu þannig frá að Sigurður Líndal, fyrrverandi lagaprófessor, hefði efast um að það stæðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að undanskilja þetta nýja hlutafélag, Ríkisútvarpið hf., þeim reglum sem fjölmiðlafrumvarpið gerði ráð fyrir að yrðu innleiddar í lög sem takmarka mundu eignarhald á fjölmiðlum. Í þeirri grein fjölmiðlafrumvarpsins er kveðið á um að einstaklingar eða fyrirtæki megi ekki eiga meira en 25% hlut í útvarps- og sjónvarpsstöðvum sem hafi a.m.k. þriðjungs markaðshlutdeild og að miða beri við samanlagða hlutdeild á hljóðvarps- og sjónvarpsmarkaði ef einstaklingur eða fyrirtæki á 10% eða meira í sérhverri stöð. Sömuleiðis kveður greinin á um það að fari eignarhald yfir áskilin mörk sé ætlast til þess að við því sé brugðist og ákveðinn frestur gefinn til að bæta þar úr.

Sigurður Líndal lagaprófessor lét hafa það eftir sér, og skilaði raunar áliti um það, að ef Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi eins og til stæði og það yrði haft 100% í eign eins eiganda, í þessu tilfelli ríkisins, færi það langt út fyrir ákvæði þessa nýja frumvarps. Vísaði Sigurður til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar hvað þetta varðaði og sagði að þarna væri teflt á tæpasta vað. Hann ráðlagði mönnum að skoða frumvarpið um Ríkisútvarpið með þetta í huga og velti upp því sjónarmiði að þarna þyrfti að gera bragarbót og breyta þá frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. á þann veg að það stangaðist ekki á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar á þann hátt sem Sigurður taldi að það gerði að óbreyttu.

Hann ráðlagði mönnum jafnframt að gaumgæfa það vel hvort sú staðreynd að Ríkisútvarpið keppti áfram á auglýsingamarkaði væri ekki líka til trafala þarna eða hvort ekki væri ámælisvert að slíkt væri til staðar í lögum um Ríkisútvarpið ef ætlast væri til þess að frumvarpið stæðist jafnræðisregluna. Um þetta hefur eflaust verið fjallað í menntamálanefnd á milli 2. og 3. umr. en ég minnist þess ekki að hafa séð að það hafi verið leitt til lykta. Það væri fróðlegt að fá það frekar upp á yfirborðið í þeirri umræðu sem nú er hafin og þá hjá þeim sem áttu aðild að umræðum í nefndinni hvort þessi álitamál hafi verið tekin sérstaklega fyrir og á hvern hátt hafi verið skilið við þau. En það kemur ekki fram í meirihlutaáliti menntamálanefndar að þetta hafi verið tekið til nokkurrar skoðunar og breytingartillögur þær sem meiri hluti nefndarinnar leggur fram bera þess ekki vitni að um þetta hafi verið fjallað. Ég tel því að um sé að ræða álitamál sem enn stendur út af og nauðsynlegt sé að skoða til enda.

Hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, fylgdi hér úr hlaði framhaldsnefndaráliti meiri hlutans og talaði um að gerðar hefðu verið breytingartillögur af hálfu meiri hlutans sem ættu sér rætur í málflutningi minni hlutans. Vitnaði hann þar til sjónarmiða hv. þm. Atla Gíslasonar varðandi t.d. höfundarréttarmál og ýmis mál er lúta að safneign Ríkisútvarpsins. Sagði hv. formaður nefndarinnar að til að mæta þessum sjónarmiðum minni hlutans hafi verið gerð breytingartillaga við 4. gr. þar sem gert er ráð fyrir að við bætist ný málsgrein sem lýsir því á hvern hátt Ríkisútvarpinu hf. sé óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafi menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og efnið verði þá varðveitt hjá félaginu.

Ég sagði í andsvari mínu við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson að þetta væri að sjálfsögðu góðra gjalda vert og ég ítreka það hér og get svo sem tekið dýpra í árinni og sagt að ég fagni því að þessi breyting sé gerð. Það nægir þó ekki á nokkurn hátt til stuðnings af minni hálfu við þetta frumvarp, svo margt er þar enn sem steypt hefur verið á stél og stangast að mínu mati á við skynsamleg vinnubrögð og skynsamlega stjórnsýslu þegar útvarp í almannaþjónustu er annars vegar.

Hv. formaður menntamálanefndar sagði að tilgangur breytingartillagnanna, ekki síst þeirrar við 4. gr. sem ég las, hafi verið að koma til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar í málinu. Hann sagði jafnframt að tilgangurinn væri sá að meiri friður mætti ríkja um málið en ella. Ég hef leyft mér að lýsa því yfir úr þessum ræðustóli í andsvari við hv. þingmann að ekkert væri tryggt í þeim efnum og ég tek undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni sem sagði áðan að hér væri einungis verið að fjölga plástrunum á meingölluðu máli. Við vitum öll að slíkir plástrar eru eingöngu til málamynda.

Ef ríkisstjórninni væri alvara með að vilja láta frið ríkja um málið kæmi ríkisstjórnin öðruvísi fram og stjórnarþingmenn ræddu þetta mál á öðrum nótum. Þá tækju þeir á annan hátt þátt í umræðunni, ekki bara í þingsalnum eða í þingnefndum, heldur ekki síður í fjölmiðlum. Þar hafa stjórnarþingmenn verið mjög sparir við að tjá sig, því miður. Satt að segja vonaðist ég til þess, sem nefndarmaður í fjölmiðlanefndinni, að fjölmiðlaumræðan um þessi mál yrði öflugri og meira yrði gert í því að reyna að kryfja mál til mergjar í fjölmiðlum, að taka hin pólitísku deilumál út á þann vettvang og velta þar við steinum. Og síðast en ekki síst skoða hvaða aðrir möguleikar væru til staðar varðandi rekstrarform Ríkisútvarpsins og skoða þá líka ofan í kjölinn hvað það er í raun sem gerir Ríkisútvarpinu jafnerfitt fyrir og raun ber vitni að starfa með glæsibrag. Það er ekki rekstrarformið, það eru aðrir hlutir og það eru mjög alvarlegir hlutir. Þar mætti varpa ljósi á ríkisstjórnina og framgöngu þingmanna stjórnarliðsins jafnvel í gegnum tíðina. Ég tel að sú umræða þurfi að fara fram og lýsi því yfir að hún fór ekki fram í menntamálanefnd, stjórnarþingmenn hafa ekki verið opnir fyrir að taka hana. Ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur ekki viljað hlusta á þær vísbendingar eða ábendingar sem komið hafa frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Hann hefur ekki tekið vel í þær hugmyndir sem starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa í gegnum tíðina komið með í skýrslum, ábendingum og yfirlýsingum varðandi þá hluti sem betur mættu fara í stjórn Ríkisútvarpsins. Við því öllu hefur verið skellt skollaeyrum. Engin skapandi umræða hefur verið í gangi á milli þeirra aðila sem vilja að Ríkisútvarpið verði hlutafélagavætt og hinna sem vilja það ekki. Þar hefur bara verið stál í stál og jarðvegur fyrir skapandi umræðu og lausn mála hefur ekki verið til staðar. Jarðvegurinn hefur ekki verið plægður af þeim sem utan um þessi mál halda vegna þess að menn hafa frekar viljað fara hér með tuddaskap, eins og ég sagði áðan, en að leita lausna af alvöru, að leita af alvöru eftir friði um málið.

Því leyfi ég mér að segja úr þessum ræðustóli að ég læt yfirlýsingar hv. formanns menntamálanefndar mér í léttu rúmi liggja. Ég tel þær vera afar lítils virði. Ég tel litla merkingu í þeim og tel í sjálfu sér ekki mikinn vilja að baki þeim og lýsi því yfir að mér finnst þær vera innantóm orð, á sama hátt og þetta frumvarp um Ríkisútvarpið hf. er bara frumvarp um hlutafélag að nafninu til.

Frú forseti. Það hefur komið í ljós í þessari umræðu að við meðferð málsins í menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. hefur verið fjallað um eiginfjárstöðu þessa væntanlega hlutafélags. Eitt af því sem mikið var fjallað um var umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem hefur verið gagnrýnd fyrir að vera flausturslega unnin. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum haldið því fram að hér sé á ferðinni mál sem þurfi betri skoðunar við. Það kemur fram í framhaldsnefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar að þetta mál hafi verið skoðað og meðal þeirra spurninga sem hafi verið varpað upp hafi verið hvert eiginfjárhlutfall þessa nýja hlutafélags ætti að vera og hvernig koma bæri því í það horf að félagið gæti fyrirsjáanlega hafið störf við stofnun þess. Frá því er sagt í framhaldsnefndarálitinu að þann 24. apríl 2006 hafi borist minnisblað inn á borð nefndarmanna frá menntamálaráðherra og fjármálaráðherra þar sem komið hafi fram að hæfilegt eiginfjárhlutfall félagsins við stofnun teljist vera u.þ.b. 10%, eða 500 millj. kr. Í sama kafla kemur fram að eiginfjárhlutfall Ríkisútvarpsins í árslok 2004 hafi numið 10,2 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi. Þeir sem vanir eru að lesa reikninga reka trúlega upp stór augu þegar þeir heyra að í félagi sem eðlilegt getur talist að hafi 500 millj. kr. eiginfjárhlutfall, 500 millj. kr., sé eigið fé í raun 10,2 millj. Ég spyr: Hvernig stendur á því að Ríkisútvarpið hefur í árslok 2004 einungis 10,2 millj. bókfært á efnahagsreikningi sem eigið fé?

Ég vil leyfa mér, frú forseti, að svara þessari spurningu í ræðu minni. Af því að ég horfi hér á hv. þm. Einar Má Sigurðarson þá sagði hann áðan að það hefði komið í ljós eftir að nefndarálitin voru gerð að eiginfjárhlutfallið sé jafnvel enn verra, og hann mun eflaust koma inn á það í ræðu sinni. En ég vil koma með svar við þeirri spurningu hvers vegna í ósköpunum Ríkisútvarpið geti einungis státað af 10 millj. kr. eigin fé á efnahagsreikningi í lok árs 2004 og jafnvel enn minna í dag. Ástæðan er einföld. Hún varpar í raun ljósi á og sýnir, svo ekki verður um villst, hver hugur ríkisstjórnarflokkanna hefur verið til Ríkisútvarpsins á undanförnum árum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa beitt áhrifum sínum ár eftir ár til þess beinlínis að veikja Ríkisútvarpið. Það hefur verið ætlunarverk Sjálfstæðisflokksins að gera það. Nú hefur hann loksins fengið Framsóknarflokkinn til fulltingis við það ætlunarverk sitt. Nú stendur Framsóknarflokkurinn staðfastur við hlið sjálfstæðismanna í því ætlunarverki að veikja Ríkisútvarpið og það hefur tekist svo um munar.

Fjárhagsleg veiking þýðir um leið fagleg veiking. Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, stendur veikt faglega í dag. Svo er ríkisstjórnarflokkunum fyrir að þakka. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna hver staðan er, vegna þess að skellt hefur verið skollaeyrum við hugmyndum starfsmanna Ríkisútvarpsins og hugmyndum þeirra sem rekið hafa Ríkisútvarpið í gegnum tíðina varðandi fjárþörf. Ég minnist þess að í þau sjö ár sem ég hef setið í menntamálanefnd Alþingis að oftar en einu sinni hafa fjármálastjóri og útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins komið á fundi nefndarinnar með yfirgripsmikil gögn, mjög skýr og einföld, þar sem sýnt er fram á hvernig fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins sé fyrir komið. Hvað hafa þessir herramenn gert? Ár eftir ár hafa þeir lýst ábyrgð á hendur okkur sem sitjum hér og förum með fjármál hins opinbera og höfum ekki séð ástæðu til að láta fjármuni úr sameiginlegum sjóðum okkar til þess að rétta við stöðu Ríkisútvarpsins og alls ekki að hækka afnotagjöldin.

Stofnuninni hefur verið gert að hagræða undir drep. Það hefur verið gert. Þar hefur verið skorin hver einasta tutla utan af beinunum og fyrst og fremst hefur þetta bitnað á dagskrárgerðinni. Nú er svo komið að það er auðvitað til skammar hvernig innlend dagskrárgerð stendur í þessari opinberu stofnun, Ríkisútvarpinu, sem að mínu mati er og á að vera ein af öflugustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Þannig var til hennar stofnað á sínum tíma og þannig ætti hún auðvitað að fá að lifa sínu lífi en þessir stjórnmálaflokkar hafa komið í veg fyrir það.

Ég held því fram úr þessum ræðustóli að þetta hafi verið meðvituð stefna. Fjársveltið sem Ríkisútvarpið hefur mátt þola á undanförnum árum hefur verið meðvituð stefna til þess gerð að veikja stofnunina, til að auðvelda Sjálfstæðisflokknum að fá fram ætlunarverk sitt að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og að endingu einkavæða það.

Þegar við þingmenn stjórnarandstöðunnar, og kannski sérstaklega þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum haldið því hér fram fullum fetum að þetta ferli sé hluti af einkavæðingarferli Ríkisútvarpsins þá hefur iðulega glumið sú spurning hvort við kunnum ekki að lesa og hvað markmiðsgreinin í frumvarpinu þýði, en hún er eins og mönnum hér er kunnugt svohljóðandi:

„Ríkisútvarpið hf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Hvað þýðir þessi setning? spurði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson áðan þegar við vorum í andsvörum við hann, stjórnarandstöðuþingmenn. Sigurður Kári Kristjánsson hélt því fram að í markmiðsgreininni mætti lesa sjónarmið ríkisstjórnarflokkanna hvað þetta varðar, að það væri ekki ætlunarverk þeirra að selja Ríkisútvarpið. Ég hef leyft mér að leggja lítinn trúnað á það. Ég hef haldið því fram að stjórnarliðar séu einungis að kaupa sér frið í svolítinn tíma og til marks um það sjónarmið mitt leyfi ég mér að benda þingheimi á prinsipp hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins, m.a. Birgis Ármannssonar og Péturs Blöndals, að selja Ríkisútvarpið. Ég bendi á fyrirliggjandi frumvarp frá síðastnefndum þingmönnum sem liggur fyrir þessu þingi, 132. löggjafarþingi, og fjallar um breytingu á útvarpslögum, lögum um tekjuskatt og eignarskatt og brottfalli laga um Ríkisútvarpið, en þar er gert ráð fyrir að breytingar verði á Ríkisútvarpinu og það selt til einkaaðila í fyllingu tímans.

Helstu röksemdir þessara háu herramanna varðandi þetta allt hafa verið tíundaðar hér í löngum ræðum og kannski óþarfi að fara mikið yfir það. Þær eru í grunninn þær að það sé óþarft að ríkið standi í úvarpsrekstri, gerð þátta, útsendingu, uppbyggingu dreifikerfis og innheimtu útvarpsgjalds til að ná fram þeim markmiðum sem Ríkisútvarpinu eru sett. Þessir háu herramenn segja að þeim sé öllum hægt að ná með útboðum þar sem allar útvarpsstöðvar, sem bolmagn hafa, keppi um að bjóða bæði góðar og hagkvæmar lausnir á þessum markmiðum og enn fremur gætu leikhús og leikhópar, kórar og söngvarar, kvikmyndagerðarfólk og annað listafólk og fjölmiðlafólk blandað sér í leikinn, einkavæðingarleik sjálfstæðismanna. Fyrir þessum sjónarmiðum talaði hv. formaður menntamálanefndar fyrir örfáum missirum á Alþingi og það gerir málflutning hans hér og nú auðvitað afar ótrúverðugan og hefur hann verið gagnrýndur úr þessum stóli fyrir hversu ótrúverðugur málflutningurinn er í ljósi forsögunnar.

(Forseti (JBjart): Það var ætlun forseta, hv. þingmaður, að gera stutt matarhlé til klukkan átta. Ef hv. þingmaður á ekki því styttra eftir af ræðu sinni verður gert hlé á þingfundi núna.)

Ég þigg það, frú forseti, að fara í matarhlé.