132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:30]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fylgdist af mikilli athygli með ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz. Hún var frábær að flestu leyti fannst mér. Hv. þingmaður færði mjög góð rök fyrir skoðunum sínum, t.d. tók hún mjög sterklega undir með því sem hér hefur verið kölluð dómstólaleiðin. Ekki hef ég þá kunnáttu í lögum eða reynslu af lagapraxís eins og hv. þingmaður að ég geti með nokkru móti mælt í gegn því sem hún sagði.

Hugsanlega fylgdist ég ekki alveg nógu ítarlega með einum kafla ræðunnar. Er það misskilningur hjá mér að hv. þingmaður lýsti stuðningi við dómstólaleiðina en gat þess jafnframt að hún mundi að þessu sinni ekki styðja breytingartillögu sem fram er komin um að hún verði tekin upp?

Ég vildi gjarnan að hún skýrði þetta og ef þetta er misskilningur hjá mér bið ég hv. þingmann innvirðulega afsökunar.