133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:08]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Samfylkingin ætlar að lækka matarreikning heimilanna. Í dag hefur þingflokkur Samfylkingarinnar lagt fram á Alþingi tillögu sem mun lækka matarreikning fjögurra manna fjölskyldu um allt að 200 þús. kr. á ári þegar hún er að fullu komin til framkvæmda. Þetta er gífurleg lífskjarabót fyrir almenning, ekki síst barnafjölskyldur. Við leggjum til að breytingar sem tillaga okkar leiðir til verði unnar í samvinnu við hagsmunasamtök bænda og neytenda og að samráð verði haft við bændur um fyrirkomulag áframhaldandi stuðnings við landbúnað.

Í fimm ár hefur Samfylkingin staðið fyrir umræðum og flutt tillögur á Alþingi bæði um úttektir á orsökum hins háa matarverðs og um aðgerðir til lækkunar. Ríkisstjórnin hefur ekki haft dug í sér til að taka á þessu brýna hagsmunamáli heimilanna og verði svo áfram mun Samfylkingin lækka matarverðið í næstu ríkisstjórn. Matarverð á Íslandi er 50% hærra en meðalverð matvæla í nágrannalöndunum í Evrópu. Þær skýrslur sem hafa verið unnar, m.a. að frumkvæði Samfylkingarinnar, um orsakir þessa háa verðs sýna allar að tollar, skattar og önnur opinber gjöld ráða mestu um hve matarverð er hátt. Samfylkingin leggur því til að vörugjöld á matvæli verði felld niður, tollar verði felldir niður í áföngum og virðisaukaskattur á matvæli verði samræmdur og lækkaður í 7%.

Í löndum þar sem gerðar hafa verið grundvallarbreytingar á umhverfi landbúnaðar hefur framleiðsla aukist og starfsemi blómgast í tengdum framleiðslugreinum. Það er mikilvægt að gera breytingar í góðri sátt og við leggjum því til að áður en tollar verði aflagðir skuli gerður ásættanlegur aðlögunarsamningur við bændur og samráð haft um fyrirkomulag stuðnings í framtíðinni. Aðlögunarsamningur var gerður við grænmetisframleiðendur þegar tollvernd var aflétt af gúrkum, tómötum og papriku. Sala á innlendu grænmeti jókst mjög eftir breytinguna og verð lækkaði, ekki aðeins á þessari vöru heldur líka á öðru grænmeti í kjölfarið.

Núverandi landbúnaðarkerfi er gallað og dýrt. Bændur búa við þrengri kost en þeir þyrftu og stöðugt fækkar í sveitum landsins. Verðlags- og samkeppniseftirlit þarf að efla og að fylgjast með verðmyndun til neytandans frá bóndanum sem í vissum tilvikum fær aðeins 20–40% af útsöluverði í sinn hlut. Það finnst okkur í Samfylkingunni ekki réttlátt.

Lækkun matarverðs kemur öllum til góða en sérstaklega er hún mikil kjarabót fyrir barnafjölskyldur. Peningar hafa flætt í ríkiskassann. Samt hefur dregið mjög úr stuðningi við fjölskyldur og umhverfi fjölskyldunnar er því miður orðið þyngra og erfiðara en áður. Íslendingar voru áður stoltir af því að búa í stéttlausu landi. Nú hafa fræðimenn bent á að ójöfnuður fer ekki aðeins vaxandi heldur er hann með því mesta sem gerist í Evrópu. Þetta stafar af því að ríkisstjórnin hefur verið upptekin við að lækka skatta á hæst launuðu hópana meðan skattar hafa hækkað á alla hina. Skattbyrði aldraðra, öryrkja og þeirra lægst launuðu hefur aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar vegna kolrangra áherslna í skattamálum. Það er dapurleg staðreynd.

Góðir áheyrendur. Öflug fjölskyldupólitík er undirstaða jafnréttis. Aðall Samfylkingarinnar er sterk fjölskyldupólitík en fjölskyldupólitík er því miður af skornum skammti hjá ríkisstjórninni. Hún velur ítrekað leiðir sem koma þeim efnamestu helst til góða. Ójöfnuður eykst stöðugt og misskiptingin er meiri en nokkru sinni. Þessu ætlar Samfylkingin að breyta.

Ríkisstjórnin er komin á síðasta snúning. Þetta finna allir. Auðvitað hefur hún gert ýmislegt gott en hún hefur brugðist heimilunum í landinu. Þess vegna á að skipta henni út í vor. Það er kominn tími til að sterkur jafnaðarmannaflokkur setjist í Stjórnarráðið.