133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:01]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við höfum nú heyrt hæstv. forsætisráðherra fara yfir samninginn sem Bandaríkjamenn skenktu íslensku samninganefndinni á elleftu stundu. Það er hverjum ljóst sem fylgst hefur með þróun þessara mála hér að íslensk stjórnvöld með sjálfstæðismenn í broddi fylkingar klúðruðu samningsstöðu okkar með ótrúlegri þrjósku og þröngsýni sem birtist í þeirri þráhyggju að fjórar orrustuþotur væru það sem þyrfti til að verja Ísland hvernig sem mál þróuðust í heiminum. Klaufaskapur sjálfstæðismanna í samskiptum sínum við Bandaríkjamenn og áhersla þeirra á að hafa forræði málsins endurspeglar mikla oftrú þeirra á sambandi sínu við æðstu menn í ríkisstjórn Bandaríkjanna. Það eru því sjálfstæðismenn í ríkisstjórn sem bera ábyrgð á því hvernig viðskilnaður Bandaríkjamanna er hér hvort sem litið er til mengunar, sem ekki er nægjanlega rannsökuð, samskipta við starfsfólk um starfslok, sem ekki voru stórmannleg, eða annað sem samningum tengist.

Það var aumlegt að sitja og hlusta á hæstv. dómsmálaráðherra tala með trega um kalda stríðið hér áðan og ætlast til þess að stjórnarandstöðuflokkar stæðu að svokölluðu samkomulagi við Bandaríkjamenn án þess að hafa séð stóra þætti þess. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gerðu samningsstöðu okkar að engu þegar því var lýst yfir að við ættum ekki annan kost en að semja við Bandaríkjamenn eftir að þeir höfðu einhliða tilkynnt um brottför sína frá Íslandi. Samningurinn sem við nú höfum ber þess öll merki að þar hafa Bandaríkjamenn einir ráðið för.

Annað sem einkennt hefur samningaferlið er hin mikla leynd sem hefur hvílt yfir viðræðunum, engin leið hefur verið í ferlinu fyrir okkur alþingismenn að kynna okkur hvað hefur verið í gangi og það sama gildir um sveitarfélögin á Suðurnesjum sem hafa undanfarin þrjú ár ítrekað án árangurs óskað eftir viðræðum við utanríkis- og forsætisráðherra um málefni varnarliðsins. Leyndin er enn fyrir hendi og engin leið fyrir okkur að leggja sjálfstætt mat á þá varnaráætlun sem Bandaríkjamenn hafa sett saman fyrir Ísland. Það er ekki boðlegt að svona sé unnið í lýðræðisríki. Það er hreint og klárt til skammar.

Almennt má segja um samningana að Íslendingar taka við rekstri flugvallarins, mannvirkjum og landi en Bandaríkjamenn fara og skilja allt eftir sig án nokkurra skuldbindinga af þeirra hálfu og skaðlausir af nánast öllu sem upp getur komið. Íslenska ríkið tekur á sig skaðabótaábyrgð gagnvart þriðja aðila ef til kemur. Samningurinn virðist gefa Bandaríkjamönnum rétt til þess að koma aftur þegar þeir sjálfir telja það nauðsynlegt og virðist, eftir orðanna hljóðan, réttur þeirra til afnota og yfirferðar á landi vera ríkari en áður var.

Frú forseti. Það veldur líka áhyggjum hversu mikið virðist eiga að blanda saman borgaralegri starfsemi og hernaðarlegri. Það er alveg kristaltært í mínum huga að þarna þurfa að vera skörp skil á milli og við eigum að geta sinnt öllu eftirliti og fylgt eftir öryggi íbúanna án þess að sú starfsemi sé dregin yfir á hernaðarsvið. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu á enn eftir að undirrita pólitíska samkomulagið en búið er að rita undir samninginn um brottför og skil. Ekki er enn búið að stofna hlutafélagið sem stofna átti um eignirnar á varnarsvæðunum og verður það að teljast slælega að verki staðið.

Hugmyndin um að stofna hlutafélag sem tæki yfir eignirnar hlýtur að hafa verið uppi um alllangan tíma og maður hefði haldið að stofnun þess færi fram samhliða því að Íslendingar fengju eignir og land afhent. Það kemur svo sem ekkert á óvart að ekki sé búið að stofna félagið þegar maður lítur til þess hvernig öll önnur vinnubrögð hafa verið í kringum samningana. Meðan félagið er ekki stofnað standa eignirnar yfirgefnar og engum til gagns og hlýtur það að vera krafa heimamanna að kraftur verði settur í þetta ferli þannig að hinni löngu óvissu um hvað taki við fari að ljúka.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum þurfa að mínu mati að koma enn frekar að stofnun og stjórnun þess félags sem nú er í burðarliðnum og ekkert annað en eðlilegt að þau verði jafnframt eignaraðilar á móti ríkinu í ljósi þess að byggðin á vellinum og starfsemi sem þar hefur farið fram hefur verið mikill áhrifavaldur á þróun og uppbyggingu byggðar neðan varnarsvæðisins. Suðurnesjamönnum var einnig gefið loforð um að Landhelgisgæslan yrði flutt til Suðurnesja eftir að tilkynnt var um brottför hersins. Það hlýtur að vera kominn tími nú til að efna það loforð.

Íslensk stjórnvöld hafa brugðist algjörlega í því að reyna að hafa einhverja stýringu á því hvernig minnkun á umsvifum hersins færi fram og með þrjósku sinni orðið til þess að lokun stöðvarinnar kemur til á sex mánuðum í stað nokkurra ára eins og best hefði verið fyrir alla. Það er nöturlegt að horfa upp á starfsmenn sem hafa meira og minna allan sinn starfsaldur unnið hjá varnarliðinu vera sagt upp með skömmum fyrirvara án þess að vinnuveitandi gerði ráðstafanir til að milda höggið sem því fylgir að verða skyndilega atvinnulaus. Íslensk stjórnvöld virðast ekki hafa lagt neina áherslu á að gæta hagsmuna starfsmanna í samningunum.

Ég hef spurt að því hvort ekki sé eðlilegt að hið nýja hlutafélag um vallareigur skoði möguleika á því að koma að starfslokasamningum starfsmanna. Gaman væri að fá svar við því.