133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:56]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargott yfirlit um frumvarp til fjárlaga árið 2007. Hlutverk fjárlaganefndar við framkvæmd fjárlaga er mjög mikilvægt. Fjárlaganefndin gegnir mikilvægu eftirlitshlutverki eins og hér hefur komið fram og ég legg mikla áherslu á að nefndin ræki það hlutverk sitt. Staðreyndin er sú að við þurfum meiri aga gagnvart þeim fjárlögum sem sett eru hverju sinni. Það að 106 fjárlagaliðir af 433 séu með meira en 4% umfram heimildir á fyrri helmingi þessa árs er óásættanleg staðreynd. Reyndar er það svo að okkur miðar áfram í þessu verkefni því að á síðasta ári voru það 135 fjárlagaliðir sem fóru umfram 4% af fjárheimildum sínum. Okkur miðar sem sagt í rétta átt.

Hér er um vandasamt verkefni að ræða sem hvílir á fjárlaganefnd Alþingis, viðkomandi ráðuneytum og forstöðumönnum stofnana. Þetta eru þeir aðilar sem bera ábyrgð á því að framkvæmd fjárlaga sé með eðlilegum hætti. Ég vil segja, hæstv. forseti, að það er náttúrlega ekki eðlilegt ástand að 106 fjárlagaliðir séu umfram 4% af fjárheimildum. Það þarf því víðtækt samstarf milli fjárlaganefndar, ráðuneyta og forstöðumanna viðkomandi stofnana til þess að ná árangri í þessum efnum og ég vil beita mér fyrir því. Ég vil síður en svo fullyrða að þessi framúrkeyrsla sé einungis forstöðumönnum stofnana um að kenna. Hugsanlega í einhverjum tilvikum er um lágan tekjugrunn að ræða en það er verkefni nefndarinnar að fara ofan í þau mál á þessu hausti og vil ég óska eftir góðu samstarfi við nefndarmenn fjárlaganefndar í því starfi, auk þess sem ég óska eftir góðu samstarfi við hæstv. fjármálaráðherra og embættismenn fjármálaráðuneytisins.

Hæstv. forseti. Staða ríkissjóðs er óhemju sterk um þessar mundir. Frumvarp til fjárlaga ársins 2007 ber þess merki að efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar er styrk, ríkisstjórnar sem hefur kjark og þor til þess að taka oft og tíðum óvinsælar ákvarðanir, sem eru til þess fallnar að viðhalda stöðugleikanum.

Við sjáum það nú að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í sumar til að ná tökum á verðbólgunni, sem voru vissulega óvinsælar, eru farnar að skila árangri. Það frumvarp sem við ræðum nú ber þess einnig vott að aðhald og aðhaldsaðgerðir verða áfram á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar til þess að standa vörð um efnahagslegan stöðugleika. Aðhaldsaðgerðir um 11 milljarða kr. Ég þykist viss um það, hæstv. forseti, að hv. stjórnarandstaða verður fljót að yfirbjóða ríkisstjórnina í þeim efnum með því að gagnrýna þessar tillögur, sem eru til þess gerðar að viðhalda efnahagslegum stöðugleika sem er svo mikilvægur fyrir heimilin í landinu.

Á árabilinu 2005–2007 er gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði niður skuldir sínar um 80 milljarða kr. Þetta er mikill og góður árangur og óumdeildur að ég tel, árangur sem þekkist vart hjá þeim þjóðum sem við berum okkur vanalega saman við. Hreinar skuldir hins opinbera árið 1995, og þá eru sveitarfélögin inni í því dæmi, voru hátt í 40% af landsframleiðslu. Samkvæmt því frumvarpi sem við ræðum hér er gert ráð fyrir að hreinar skuldir hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, verði um 8,9% á næsta ári. Við höfum verið að stórlækka þessar hlutfallslegu skuldir sem mun náttúrlega búa í haginn fyrir rekstur ríkissjóðs í framtíðinni því að við höfum verið að greiða gríðarlega háa vexti af miklum skuldum ríkissjóðs en við getum varið þessum fjármunum til þess að standa undir öflugu heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi.

Eignir ríkisins í Seðlabanka Íslands voru rúmlega 100 milljarðar í ágúst sl. Auk þess hefur ríkisstjórnin frá árinu 1995 sett 120 milljarða í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þegar Framsóknarflokkurinn kom í ríkisstjórn árið 1995 blasti við gjaldþrot Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er búið að setja 120 milljarða til þess að styrkja stöðu sjóðsins og þar af leiðandi réttindi þeirra opinberu starfsmanna sem munu þiggja þau í framtíðinni og eiga rétt á.

Hæstv. forseti. Í ljósi góðrar stöðu ríkissjóðs tel ég það skylt að ríkisstjórnin skili góðri stöðu ríkissjóðs til heimilanna í landinu. Við erum sannarlega að gera það og það frumvarp sem við ræðum hér ber þess vissulega merki. Þegar hv. þm. Einar Már Sigurðarson leggur það hér á borð að við séum að auka ójöfnuð í samfélaginu, þá er þar um villandi málflutning að ræða, beinlínis villandi málflutning og ekki trúverðugan málflutning frekar en fyrri ár á þessu kjörtímabili af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Við munum hækka skattleysismörk um 14% samkvæmt frumvarpinu, um 12 þúsund kr. Það er gríðarlegt baráttumál sem aldraðir hafa haft uppi og ríkisstjórnin og aldraðir hafa komist að samkomulagi um sem er verið að efna hér samkvæmt frumvarpinu, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson benti réttilega á. Verið er að hækka skattleysismörk um 14%. Við erum að hækka barnabætur um 1,7 milljarða, um 20%. Þegar hv. þm. Einar Már Sigurðarson heldur því fram blákalt að ríkisstjórnin hafi verið að skerða barnabætur ætla ég að fletta upp í frumvarpi fjárlaga fyrir árið 2007 á bls. 393 og benda á það að í ríkisreikningi árið 2005 var varið 5,3 milljörðum til barnabóta. Í fjárlögum ársins 2006 eru þetta orðnir 6,8 milljarðar. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 eru þetta orðnir 8,5 milljarðar. Við erum að hækka barnabætur um 25% á milli ára og við erum að veita núna í fyrsta skipti barnabætur til einstaklinga sem eru 16 og 17 ára, einstaklinga sem eru að hefja sitt framhaldsnám, oft og tíðum fjarri heimaslóðum, og við erum að koma til móts við þessar fjölskyldur sem eru að mennta börnin sín og þetta er mikilvægt mál. En það er ekki að furða að fólk skilji mikið í þeirri umræðu sem hér fram þegar hv. þm. Einar Már Sigurðarson ranghvolfir svona staðreyndum eins og raun ber vitni. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Við höfum líka komið til móts við eldri borgara. Við höfum aflagt eignarskattinn. Eldra fólk sem býr í eigin húsnæði sem oft og tíðum er skuldlaust þarf ekki að borga ósanngjarnan eignarskatt af eignum sínum. Þetta er gríðarleg kjarabót fyrir eldri borgara. Við erum að vinna í því að leggja hér fram frumvarp um vaxtabætur sem mun hljóða upp á það að endurálagning verður í því formi þannig að þeir einstaklingar sem urðu fyrir óréttmætri skerðingu á vaxtabótum munu fá leiðréttingu sinna mála í haust og frumvarp til fjárlaga árið 2007 gerir ráð fyrir aukningu á fjármunum til vaxtabóta. Það er því ekki verið að skera niður fjármuni í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Efnahagslífið er blómlegt. Landsframleiðsla á hvern mann hefur aukist um 50% frá árinu 1995–2005, enda hefur það skilað sér til einstaklinganna í landinu. Kaupmáttaraukning heimilanna er um 60% frá árinu 1995. Sömu sögu er ekki hægt að segja af ferli kratanna í ríkisstjórninni árin 1991–1995. Þar var kjararýrnun í samfélaginu og hverjir fóru verst út úr þeirri kjararýrnun? Það voru einmitt þeir sem hvað verst stóðu í samfélaginu. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir á t.d. Íslandsmet í því að skerða barnabætur til heimilanna í landinu, og í hvaða ástandi skertu kratarnir barnabætur? Það var á tímum tekjusamdráttar. Núna erum við að lifa á þeim tímum að tekjur heimilanna eru að aukast og við erum jafnframt að auka barnabætur til heimilanna í landinu, sérstaklega til lágtekjufólks og millitekjufólks. Svo halda menn því hér fram að sú ríkisstjórn sem nú situr sé einhver hægri stjórn. Við höfum aukið samneysluna í samfélaginu frá árinu 1995. Við höfum stóreflt heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið. Við höfum aukið framlög til heilbrigðismála um 27,5 milljarða frá árinu 1998 eða um 49% að raungildi. Við höfum aukið framlög til almannatrygginga um 23 milljarða kr. frá 1998 eða um 45%. Við höfum aukið framlög til fræðslumála um 12,3 milljarða frá árinu 1998 eða um tæp 60%. Framlög ríkisins til háskólastigsins, og sýnir þar af leiðandi áherslu ríkisstjórnarinnar á menntamál, hafa aukist um 7,4 milljarða frá 1998 eða um 80%. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ef þessar tölur sem ég hef hér nefnt eru vitni um það að sú ríkisstjórn sem nú situr sé einhver sérstök hægri stjórn þá er það rangur málflutningur. Hér er um velferðarstjórn að ræða sem hefur verið að styrkja stoðir mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfisins í landinu. Núverandi stjórn hefur staðið vörð um þessa mikilvægu þætti og mun halda því áfram eins og það frumvarp sem við ræðum hér ber merki um.

Hæstv. forseti. Mig langar örlítið að koma inn á tekjuhlið frumvarpsins og hvað það er sem hefur skilað okkur þeim árangri að við höfum getað bætt kjör alls almennings með skattalækkunum, hækkuðum vaxtabótum, hækkuðum barnabótum ásamt því að lækka skatta á fyrirtæki. Hvað hefur skilað okkur fram þennan veg? Er þetta þróun sem gerist af sjálfu sér? Ég segi nei. Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir miklum umbótum á sviði atvinnumála.

Fyrst er þar að nefna stefnu okkar í sjávarútvegsmálum. Ísland er trúlega nær eina Evrópuþjóðin þar sem sjávarútvegurinn er að greiða fjármuni inn í ríkissjóð. Við erum ekki að borga með íslenskum sjávarútvegi. Samhent stjórnarandstaða sem nú er komin hér til þings hefur trúlega það að markmiði áfram að rústa íslenskan sjávarútveg því að fara svokallaða fyrningarleið — og sé ég að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson brosir hér hlýlega til mín og vill trúlega að þetta stefnumið frjálslyndra verði ofan á í komandi kosningum. Hvað verður þá um fyrirtæki eins og Samherja á Akureyri eða Síldarvinnsluna í Neskaupstað, fyrirtæki sem eru í almenningseign, í eigu lífeyrissjóðanna, hvað verður um þessa stóru og öflugu vinnustaði í þessum byggðarlögum? Ætli það yrði ekki högg fyrir viðkomandi fyrirtæki ef stefna Frjálslynda flokksins verður ofan á í þessum efnum? Ég hræðist það fyrir hönd landsbyggðarinnar ef þessi sjónarmið verða ofan á eftir næstu kosningar.

Annað er það sem Framsóknarflokkurinn hefur beitt sér fyrir. Árið 1995 var hér viðvarandi atvinnuleysi. Það var tekjusamdráttur í þjóðfélaginu, tekjusamdráttur var hjá heimilunum í landinu og það vantaði tilfinnanlega erlenda fjárfestingu í samfélagið. Við hófum þá sókn að hvetja erlenda fjárfesta til að fjárfesta í atvinnulífinu hér á landi, m.a. með uppbyggingu álvers á Grundartanga og núna síðast með frægri Kárahnjúkavirkjun sem er svo mikið í umræðunni. Þessar framkvæmdir hafa knúið áfram hagvöxt og aukið velmegun heimilanna í framhaldinu. Nú er það rætt í neikvæðum tón að menn byggi upp atvinnulíf með þessum hætti.

Menn tala mjög neikvætt um framkvæmdir á Austurlandi og þá sérstaklega fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Maður hlýtur að velta því fyrir sér í þeirri umræðu sem um Kárahnjúkavirkjun fer fram, þessa mikilvægu framkvæmd sem mun skila þjóðarbúinu milljörðum í útflutningstekjur sem við getum svo varið í framhaldinu til uppbyggingar í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum, að sú umræða sem fer fram af hálfu forustumanna Vinstri grænna — þau eru fræg ummæli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í frægri fjallræðu þar sem hann talaði um heimsku manna og átti þá væntanlega við þá sem að þessari framkvæmd standa og átti væntanlega við færustu verkfræðinga landsins sem hafa komið að þessu máli um áraraðir, þegar hann talar um heimsku manna og telur réttast að það eigi að fresta fyllingu Hálslóns og láta þessa virkjun, þessa stíflu standa sem vitni um heimsku manna. Það hefur kostað 120 milljarða ísl. kr. að byggja þetta mannvirki. Annarri eins upphæð er verið að verja til þess að byggja upp atvinnulíf á Reyðarfirði með álveri þar. Við erum komin í 240 eða 250 milljarða kr. í fjárfestingu á þessari framkvæmd sem er að verða fullgerð. Ætli íslensk stjórnvöld yrðu ekki skaðabótaskyld gagnvart þeim erlendu aðilum sem eru að hefja rekstur á Reyðarfirði í góðri trú, búnir að gera skuldbindandi samninga til fimm ára um að flytja út afurðir sínar? Ætli við þyrftum ekki að reiða út meira en 240–250 milljarða ef hugmyndir Jóns Bjarnasonar og félaga í Vinstri grænum yrðu að veruleika?

Hvað erum við að tala um bara í stofnkostnaði? Kannski 300 milljarða, sem er rekstur Landspítala – háskólasjúkrahúss í tíu ár, eða rekstur Þjóðleikhússins í 500 ár. Þegar hv. þingmenn Vinstri grænna segja að peningar séu ekki allt og þessi endalausa trú Framsóknarflokksins á hagvöxtinn sé alveg að keyra um þverbak verðum við að hafa það í huga að við þurfum að reka ríkisstofnanir með fjármunum og einhvers staðar verðum við að fá þá fjármuni. Og það munu miklir fjármunir renna í ríkissjóð vegna þessara framkvæmda á Austurlandi.

Hvað halda hv. þingmenn að eitt þúsund störf sem munu skapast á Austurlandi í tengslum við þessar framkvæmdir muni skila í ríkissjóð? Hér er um svo glæfralegt tal að ræða af hálfu forustumanna Vinstri grænna að það tekur ekki tali. Það getur ekki talist ábyrgur stjórnmálaflokkur sem kemur fram með hugmyndir af þessu tagi, skellir þessu bara svona fram með formann Vinstri grænna sem dregur vagninn og meira að segja heyrast ótrúlegustu raddir úr öðrum stjórnarandstöðuflokkum þar sem t.d. sumir samfylkingarmenn eru að reyna að toppa Vinstri græna í umhverfisstefnu sinni.

Hér er um mjög óábyrgan málflutning að ræða og menn þurfa í haust að standa skil á þessum orðum sínum. Það er í raun og veru undarlegt að íslenskir fjölmiðlamenn skuli ekki hafa spurt nánar út í stefnu Vinstri grænna hvað þetta varðar. Það er flokkur sem er að mælast með um 20% fylgi, flokkur sem mögulega gæti komist í ríkisstjórn eftir næstu kosningar, og það að flokkur skuli leyfa sér að bera svona hugmyndir á borð sem mundu rústa velferðarkerfinu og mundi þurfa í framhaldinu að stórhækka skatta á landsmenn, er ekki gott. Þessi flokkur, stjórnarandstöðuflokkurinn Vinstri grænir, þarf að gera nánar grein fyrir stefnu sinni á þessu sviði. Er það hugsanlega stefna þeirra að tæma Hálslón ef þeir komast í ríkisstjórn? Ég held að hv. þm. Jón Bjarnason þurfi nú í öllum þessum álversræðum sínum að gera grein fyrir stefnu Vinstri grænna hvað þetta varðar.

Í þriðja lagi, hæstv. forseti, vil ég nefna það að við höfum verið að auka frjálsræði á markaðnum. Við höfum verið að markaðsvæða ríkisfyrirtæki, sem er ekki séríslensk þróun. Markaðsvæðing ríkisbankanna og Landssímans hefur skilað okkur gríðarlega auknum hagnaði, hagnaður bankanna til að mynda á fyrstu sex mánuðum ársins var 72,3 milljarðar. Ætli skattar bankanna séu þá ekki í kringum 15 milljarðar, sem er hálfur rekstur Landspítala – háskólasjúkrahúss? Svo koma menn hér upp skipti eftir skipti og fordæma þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hafa stóraukið þjóðartekjur. Í þessum tölum erum við einungis að tala um hagnað bankanna, ekki þeirra ágætu starfsmanna sem þar vinna og greiða mikla skatta inn í íslenskt samfélag. Ég held því að við þurfum að halda þessu öllu til haga. Við höfum verið að koma á fót stóriðju sem mun stórauka útflutningstekjur þjóðarinnar, við höfum verið að auka frjálsræði á bankamarkaði og líka á fjarskiptasviðinu og síðan höfum við staðið vörð um sjávarútvegsstefnuna sem hefur verið að skila gríðarlegum tekjum inn í íslenskan ríkissjóð.

Vinstri grænir hafa verið á móti öllum þessum hugmyndum. Svo furða menn sig á að Vinstri grænir séu nefndir, að þeir séu á móti öllu. Það er einfaldlega þannig að Vinstri grænir hafa verið á móti nær öllum þeim tillögum og framkvæmdum sem ríkisstjórnin hefur farið í á síðustu árum í efnahagsmálum. Við getum þá spurt okkur að því hvort við værum að horfa upp á fjárlög með viðlíka afgangi og hér er verið að leggja fram. Íslenskur ríkissjóður er að verða skuldlaus, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar minnast ekki mikið á það, en þetta er nærri því einsdæmi samanborið við þau lönd sem við berum okkur saman við.

Hæstv. forseti. Það er því með bros á vör sem ég fer í þá vinnu að fara yfir frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007. Það er ekki eftirsóknarvert hlutskipti að vera í stjórnarandstöðu þegar svona árar. En það sem ég vildi hafa sagt í þessu ef við setjum hlutina í samhengi: Það frumvarp sem hér er varð ekki til af sjálfu sér frekar en það góða efnahagsástand sem nú ríkir í samfélaginu.