133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:52]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, skuldir heimilanna eru miklar og það eru eignir á móti, en ég vil minna hv. þingmann á að mjög margir hafa, frá því að bankarnir voru seldir og frá því að þeir buðu hin óheftu íbúðalán, verið að fjárfesta í eigin húsnæði eða til atvinnurekstrar. Það er nú svo komið að mjög margir eiga orðið erfitt og geta ekki staðið í skilum. Ég tel það áhyggjuefni og ég hvet hv. þingmann til að láta þá skoðun fara fram að athuga félög sem eru í eigu bankanna, fjárfestingarfélög, og hvernig farið er með þær eignir sem einstaklingar og fyrirtæki missa af því að fólk getur ekki staðið í skilum með greiðslur af hinum háu lánum og yfirdráttarlánum sem það þarf að greiða í dag. Gæti farið svo að bankarnir yrðu einn helsti eigandi íbúðarhúsnæðis á landinu innan fárra ára? Það skyldi þó ekki vera ef háir vextir og verðbólga halda áfram?

Heilbrigðisþjónustan hefur hugsanlega verið aukin að raungildi, ég hef ekki þær tölur, hæstv. forseti. En ég tel að sú uppbygging sem hér hefur farið fram á undanförnum árum með áherslu á einkareksturinn, með áherslu á sérfræðiþjónustuna og að ekki skuli hafa verið staðið betur að uppbyggingu heilsugæslunnar, og þá sérstaklega í höfuðborginni, sé (Forseti hringir.) hluti af hinum auknu útgjöldum heilbrigðisþjónustunnar.