133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:49]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur margsinnis komið fram í þeim skýrslum, samantektum og útreikningum sem ráðuneytið hefur gert að virkjanir, Kárahnjúkavirkjun sérstaklega, auka umtalsvert hagvöxt umfram það sem annars hefði verið, ef ekki hefði til þeirra komið. Ég held að þær upplýsingar hafi verið nægjanlegar til að taka ákvarðanir um þær virkjanir sem þegar hafa verið gerðar og síðan hefur reynslan sýnt okkur hversu mikilsverðar þær hafa verið fyrir okkur.

Ég verð hins vegar að þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnisleg svör við spurningum mínum, þ.e. að það skiptir ekki máli hvert arðsemismatið er. Hann er á móti því að virkja og byggja stóriðju á virkjunum. Þess vegna skil ég ekki af hverju er þá alltaf verið að tala um að arðsemismatið sé ekki nægjanlega gott og að gera ætti eitthvað annað arðsemismat sem ætti að vera einhvern veginn öðruvísi, ef svarið er fyrir fram það að arðsemismatið skipti ekki máli. Bæði hann og fleiri hans félagar hafa talað um þetta.