133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:26]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki hissa á því að hv. þm. Jón Bjarnason hafi áhyggjur af kostnaði við símaþjónustu, hann talar svo mikið.

En ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga: Hér í upphafi þings komu saman formenn stjórnarandstöðuflokkanna og boðuðu mikla samstöðu í þeim verkefnum sem bíða okkar á Alþingi. Nú er varla dagur liðinn frá því að þessi heilaga þrenning kom saman og lýsti því yfir í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum að svo skyldi verða en nú er orðið svo ástatt að þessi heilaga þrenning hefur splundrast í margar áttir. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvað hafi valdið því að samstaðan er ekki lengur fyrir hendi svona stuttu eftir að þessi tilkynning átti sér stað. Þessu til staðfestingar vil ég nefna að hv. þingmaður Frjálslynda flokksins, Sigurjón Þórðarson, hefur talað hér fyrir sparnaði á meðan hv. þm. Jón Bjarnason hefur talað fyrir auknum útgjöldum.

Síðari spurning mín til hv. þm. Jóns Bjarnasonar er sú hvort hann telji það ekki góðan árangur hjá ríkisstjórninni að á tveggja ára tímabili eða yfir árin 2005 og 2006 sé tekjuafgangur rúmlega 100 milljarðar kr.