133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:34]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé eiginlega lágmarkskrafa að þessi samningur verði a.m.k. sýndur í fjárlaganefnd. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra verði við þeirri ósk. Ég náði ekki að bera mig saman við alla félaga mína í fjárlaganefnd en náði þó í einn sem hefur setið þarna býsna lengi, jafnlengi og sá sem hér stendur, og við munum hvorugur eftir því að samningurinn hafi sést í nefndinni. Það hlýtur eiginlega að vera lágmarkskrafa að samningurinn komi til nefndarinnar vegna fjárskuldbindinganna sem felast í honum.

Herra forseti. Af því að þetta eru lokaorð mín í þessari umræðu í kvöld vil ég auðvitað taka undir það með hæstv. fjármálaráðherra að það er vonandi að samstarf milli fjárlaganefndar og ráðuneytis verði með ágætum. Ég vona að við náum því, eins og tekist hefur mörg undanfarin ár, að standa við þá áætlun sem sett hefur verið upp varðandi afgreiðslu fjárlaganna og hef enga ástæðu til að ætla annað en vona að vinnubrögð í nefndinni verði til sóma og fari frekar batnandi.