133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:21]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarp til fjáraukalaga sýnir okkur að það er ekki erfitt að halda utan um heftið uppi í fjármálaráðuneyti þessa dagana, aukning í tekjum ríkisins upp á rúma 40 milljarða kr. frá því sem ráð var fyrir gert í fjárlagafrumvarpi.

Þegar maður skoðar hvað veldur þessu og hvar helstu skekkjurnar eru í tekjuáætlun kemur í ljós að ríkið fær verulega hærri skatta af flestöllum tekjupóstum sínum, hvort sem það eru tekjuskattar af launasköttum, fyrirtækjaskattar, virðisaukaskattur, vörugjald og svo mætti lengi telja.

Það stendur í skýringum með fjáraukalagafrumvarpinu að hlutfall skatttekna af landsframleiðslu hækki nokkuð frá fjárhagsáætlun eða úr 27,3% í 31% af landsframleiðslu. Nú hefur landsframleiðsla ekki minnkað sem neinu nemur og frekar aukist. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er hann ekki að segja sjálfur í sínu eigin frumvarpi að skattar á Íslandi hafi hækkað verulega? Er það ekki ein skýringin á því hve miklar tekjur koma til viðbótar í ríkissjóð að skattar ríkisins á þessu ári aukast verulega? Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra mundi svara því.

Þegar maður skoðar svo skýringar á því hvaða skattar það eru sem hafa verið að hækka kemur í ljós að gert er ráð fyrir að skattar á vöru og þjónustu aukist um 12,5 milljarða kr. Í skýringum á bls. 51 segir:

„Þessar hækkanir má rekja til enn meiri einkaneyslu en spáð hafði verið.“

Á blaðsíðunni á undan kemur fram að einkaneyslan hefur aukist minna en fjárlög gerðu ráð fyrir, ekki um 4,3% eins og fjárlögin gerðu ráð fyrir heldur 4%. Er þetta prentvilla eða hvernig stendur á þessum öfugmælum?