133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:24]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það væri gott að fá skýringu á því þegar hvað rekst á annars horn í texta og síðan töflum í fjáraukalagafrumvarpinu. Hæstv. fjármálaráðherra segir að við eigum að skilja af hverju skattheimta er verulega að aukast á Íslandi og við skiljum það alveg. En við skiljum það líka að þegar tekjupóstar ríkisins skila miklu meiri tekjum en ráð var fyrir gert þá er hægt að bregðast við og lækka tekjurnar. Hækkun á persónuafslætti hefði t.d. slegið verulega á þessa hækkun á tekjuskatti.

Af hverju gengur það bara í eina átt að halda fjárlög? Öllum sem fara yfir þau útgjöld sem fjárlög heimila er gert að halda sig innan fjárlaga en þegar tekjur fara upp úr öllu valdi langt umfram það sem ráð er fyrir gert þá er ekkert gert til að mæta því að halda tekjunum innan ramma fjárlaga. Hvernig stendur á því, hæstv. ráðherra? Af hverju er ekki hægt að bregðast við í þá áttina alveg eins og hina?