133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

lánveitingar Íbúðalánasjóðs.

105. mál
[14:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. síðasta ræðumann um að það er samstaða í þingflokki Samfylkingarinnar og í Samfylkingunni allri um það sem efni þessarar fyrirspurnar snýst um, að bæta þurfi stöðu fólks með lágar og meðaltekjur á íbúðamarkaðnum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vona að hann standi við það að breyta þessu viðmiði úr brunabótamatinu þannig að miðað verði við kaupverð eigna vegna þess að þetta er að ganga fram af fólki og gera það ofurselt leigumarkaðnum sem annars gat bjargað sér og komið sér þaki yfir höfuðið.

Formaður Félags fasteignasala, sem ég hafði samband við í dag, segir að fara þurfi marga áratugi aftur í tímann til að finna verra ástand en það sem kaupendur sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð standa frammi fyrir í dag. Þessu fólki þarf að koma til bjargar, m.a. með því að breyta þessu viðmiði. Eins og ég sagði áðan þurftu fyrstuíbúðarkaupendur að leggja fram 1 milljón kr. af 10 millj. kr. eign fyrir fimm árum síðan en í dag þurfa þeir að reiða fram 4 milljónir fyrir nákvæmlega eins íbúð. Ungt fólk hefur ekki þessa peninga. Þess vegna er orðið mjög brýnt að hæstv. ráðherra vindi sér í þetta og ég vona að hann breyti þessu fljótt og vel.

Viðbótarlánin voru með þessu viðmiði, miðað var við kaupverð en ekki brunabótamat. Hvers vegna í ósköpunum var þessu breytt gagnvart þeim sem eru að kaupa og eignast sína fyrstu íbúð? Sú breyting sem gerð var í sumar hafði engin áhrif á verðbólguna vegna þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér fengu aðeins 20 manns á fyrsta ársfjórðungi eftir að þessi breyting varð gerð 90% lán út af þessu lánshlutfalli. Þetta kom fyrst og fremst niður á landsbyggðinni. Það eru fyrst og fremst lán bankanna sem hafa keyrt upp verðbólguna. Þeir voru með 35 milljarða útlán í upphafi á árinu 2004 meðan (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóður var að meðaltali með um 5 milljarða. Það sem fyrrverandi ráðherra gerði í sumar hafði því engin áhrif til að draga úr verðbólgunni.