133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[14:20]
Hlusta

Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála en í þeirri tillögu felst að Alþingi feli ríkisstjórninni að endurskoða lífeyriskafla laga um almannatryggingar. Endurskoðunin verði unnin í fullu samráði við samtök aldraðra og öryrkja. Skoðað verði í þessari vinnu samspil almannatrygginga og lífeyriskerfisins með það að markmiði að einfalda tryggingakerfið, draga úr skerðingaráhrifum tekna og auka möguleika lífeyrisþega til að bæta kjör sín. Þá verði komið á afkomutryggingu sem tryggi viðunandi lífeyri. Til undirbúnings afkomutryggingunni verði þegar í stað gerð úttekt á framfærslukostnaði lífeyrisþega sem grunnlífeyrir þeirra og tekjutrygging byggist síðan á.

Lagt er til að skilgreining á neysluútgjöldum lífeyrisþega, sem afkomutryggingin byggist á eins og fyrr sagði, liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2007 ásamt tillögum um hvernig draga megi frekar úr skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna annarra tekna. Þegar úttekt hefur verið gerð á framfærsluþörf lífeyrisþega skal í samráði við hagsmunasamtök þeirra gera áætlun um tímasetta áfanga afkomutryggingarinnar. Það er þessi afkomutrygging, virðulegur forseti, sem er stærsti liðurinn í þeirri þingsályktun sem hér er flutt þó að fjölmargt annað komi þar líka til sem ég mun fara yfir á eftir.

Tillaga þessi er flutt sameiginlega af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins. Fulltrúar þingflokkanna hafa að undanförnu rætt um og samræmt áherslur sínar á sviði almannatryggingamála. Allir hafa þessir flokkar flutt tillögur um málið á undanförnum þingum. Þessir flokkar hafa ályktað og sett fram sín sjónarmið á þessu sviði með margvíslegum hætti og tekur tillagan mið af þeim málatilbúnaði. Við höfum sem sagt farið yfir sviðið, skoðað tillögur og ályktanir þessara flokka og sett saman þessa tillögu í kjölfar þess. Tillagan endurspeglar það sameiginlega viðhorf stjórnarandstöðunnar að eitt allra brýnasta verkefnið á sviði velferðarmála hér á landi sé að bæta kjör öryrkja og aldraðra. Óumdeilt er að allur þorri þeirra sem þessum hópum tilheyrir hefur alls ekki notið sambærilegs lífskjarabata og aðrir landsmenn undanfarin ár. Úr því vill stjórnarandstaðan bæta án frekari tafar með þeim aðgerðum sem þessi tillaga felur í sér.

Þessar tillögur koma til viðbótar og ganga mun lengra en þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur fallist á að grípa til eftir mikinn þrýsting af hálfu eldri borgara og öryrkja. Eins og kunnugt er hefur mikil óánægja og reiði byggst upp í samfélaginu sökum þess hvernig aldraðir og öryrkjar hafa setið eftir.

Tillagan felur í sér annars vegar tafarlausar aðgerðir sem fela í sér verulegar kjarabætur til þessa hóps þegar á þessu ári og svo frá næstu áramótum. Hins vegar felur tillagan í sér aðgerðir eins og fyrr sagði sem leggja grunn að breyttri grundvallarskipan þessara mála. Þar eru veigamestu breytingarnar sú lífsafkomutrygging sem ég gat um áðan sem tekur mið af raunverulegum framfærslukostnaði sem og tilkoma innbyggðs hvata eða auknir möguleikar elli- og örorkulífeyrisþega til að bæta stöðu sína með viðbótartekjuöflun án þess að til skerðingar komi.

Kostnaður sem fylgir framkvæmd tillögunnar er vel viðráðanlegur og rúmast að mati stjórnarandstöðunnar innan þess ramma sem núverandi tekjuöflun ríkissjóðs og áætlaður hagvöxtur býður upp á. Það má heldur ekki gleyma því að breytingum af þessu tagi fylgir sparnaður annars staðar, svo sem hjá sveitarfélögunum, og jafnvel einnig nokkrar skatttekjur til sveitarfélaganna og ríkisins samfara aukinni atvinnuþátttöku aldraðra og öryrkja ef kerfið virkar hvetjandi í þeim efnum. Mikilvægastur er þó hinn samfélagslegi ávinningur og aukin lífsgæði þeirra sem breytinganna munu njóta. Þingflokkar stjórnarandstöðunnar munu fjalla frekar um kostnaðarlið tillögunnar við afgreiðslu fjárlaga og tillögunni verður þá fylgt eftir með flutningi tillagna um viðeigandi fjárheimildir, og fjármögnun verður þá skoðuð nánar.

Meginmarkmið þessarar þingsályktunartillögu er að hækka lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja svo og að auka svigrúm þeirra til að afla sér tekna án þess að það skerði lífeyrisgreiðslur þeirra. Sérstök áhersla er lögð á að bæta kjör þeirra sem minnst hafa og að tekin verði upp, eins og ég sagði, afkomutrygging sem komi til handa öllum öldruðum og öryrkjum.

Ég mun nú, virðulegi forseti, fara yfir einstök atriði þessarar tillögu en veigamesta breytingin og sú sem kemur nú strax til framkvæmda er hækkuð tekjutrygging. Gert er ráð fyrir að ný tekjutrygging hækki í 85 þús. kr. hjá öldruðum í 1. áfanga og í 86 þús. kr. hjá öryrkjum að viðbættum vísitölubreytingum sem orðið hafa að undanförnu. Lífeyrisþegi sem býr einn á kost á heimilisuppbót til viðbótar til að mæta aukakostnaði við það að vera einn og þeir sem einnig fá heimilisuppbót mundu því hækka úr rúmlega 126 þús. kr. í rúmar 133 þús. Þá er lagt til að skerðingarprósentan, þ.e. það sem lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar skerðast um vegna tekna lífeyrisþegans, fari þegar um áramótin úr 45% í 35%, en ríkisstjórnin áætlar að lækka hana í 39,95% um áramótin og aftur í 38,35% árið 2008. Hér eru því lagðar til minni tekjuskerðingar þegar frá 1. janúar 2007 sem skapar öldruðum meira svigrúm og tekjuauka en verið hefur.

Þá er lagt til, virðulegi forseti, að tekið verði upp frítekjumark vegna atvinnutekna sem verði 900 þús. kr. á ári eða 75 þús. kr. á mánuði þegar frá 1. janúar 2007. Tillaga ríkisstjórnarinnar, sem hún lagði fram seinni part sumars, felur í sér 200 þús. kr. frítekjur á ári frá 1. janúar 2009. Þær koma ekki til framkvæmda fyrr en 2009, 200 þús. kr. frítekjumarkið og upp í 25 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2010, þannig að aldraðir þurfa þá að bíða allt árið 2007 og allt árið 2008 til að geta notið 200 þús. kr. frítekjumarks eða 17 þús. kr. á mánuði sem ríkisstjórnin leggur til, sem við leggjum til að fari sem sagt þegar í 75 þús. kr. þann 1. janúar 2007. Það þýðir auðvitað að aldraðir geta unnið sér inn 75 þús. kr. á mánuði án þess að það skerði þær greiðslur sem þeir fá frá Tryggingastofnun í tekjutryggingu.

Það er líka gert ráð fyrir því í tillögunni að rétt sé að skoða hvort heimila eigi að nýta einhvern hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði í stað þess að lífeyristekjur skerði tryggingagreiðslur strax frá fyrstu krónu. Með því yrði komið til móts við þann hluta hópsins sem ekki er fær um að afla sér atvinnutekna og bæta þannig stöðu sína en hefur hins vegar einhverjar tekjur frá lífeyrissjóði. Við leggjum sem sagt til að það verði skoðað sérstaklega hvort þarna megi færa á milli. En tillagan um frítekjumark upp á 75 þús. kr. á mánuði er mjög mikilvæg í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið, m.a. fyrir tilstuðlan stjórnvalda sem hafa verið að hvetja aldraða til að taka aukinn þátt í atvinnulífinu. Það hefur verið talað um leikskólann í því sambandi, það hefur verið talað um verslanirnar í því sambandi en hvers vegna í ósköpunum ættu aldraðir að afla sér atvinnutekna þegar atvinnutekjurnar skerða jafngróflega það sem þeir fá í lífeyrisgreiðslu og raun ber vitni.

Þá gerir þessi tillaga ráð fyrir því að ráðstöfunarfé og vasapeningar lífeyrisþega sem dveljast á stofnunum hækki um 50% samhliða afnámi frítekjumarks og það verði afturvirkt frá 1. júlí 2006. Þá gerum við ráð fyrir að vasapeningarnir hækki sem sagt um 11 þús. kr. rúmar og verði rúmar 34 þús. kr. á mánuði hjá vistmanni með engar aðrar tekjur. Við gerum jafnframt ráð fyrir því að ef þeir sem fá núna tekjur úr lífeyrissjóði og halda eftir af því 50 þús. kr. á mánuði fara á hjúkrunarheimili, haldi þeir eftir 75 þús. kr. Þessi viðmiðun er líka fyrir þá sem fá úr lífeyrissjóði en greiða stærstan hluta jafnvel af því sem þeir þaðan fá til hjúkrunarheimilisins. Þeir geti haldið eftir 75 þús. kr. og að vasapeningar hinna sem ekkert hafa nema frá Tryggingastofnun hækki um 11 þús. kr.

Tillagan gerir líka ráð fyrir því að lífeyrir verði aftengdur tekjum maka og aldraðir öryrkjar haldi sinni örorkuuppbót. Með þessu viljum við stuðla að því að litið sé á einstaklingana, hina öldruðu, sem efnahagslega sjálfstæða einstaklinga sem hafi sínar eigin sjálfstæðu tekjur án þess að þær séu tengdar við tekjur maka. Við teljum að það sé mjög mikilvægt að þetta komi til framkvæmda en í tillögum ríkisstjórnarinnar er einungis gert ráð fyrir að afnema þetta að hluta. Við viljum stíga skrefið til fulls og aftengja þarna alveg á milli.

Þær tillögur sem hér er verið að fjalla um koma til viðbótar því sem ríkisstjórnin samdi um, ef við notum það orðalag, við Landssamtök eldri borgara og þær breytingar sem því eru samhliða, en það er alveg ljóst að það er gífurleg óánægja með það hjá lífeyrisþegum hversu skammt var gengið í þessu svokallaða samkomulagi, hversu skammt var gengið í því að bæta lífeyri aldraðra. Forsvarsmenn Landssamtaka eldri borgara hafa lýst yfir óánægju sinni og sagt að lífeyrishluti viljayfirlýsingarinnar sé allt of rýr. Það hefur reyndar komið fram opinberlega hjá forsvarsmönnum þeirra að þeir hafi fallist á þessa niðurstöðu í lífeyriskafla samkomulagsins frá því í sumar vegna þess að þeir hafi fengið skýr skilaboð um að gerðu þeir það ekki stefndu þeir í hættu þjónustuþætti yfirlýsingarinnar sem tekur á því hvernig byggja eigi upp öfluga heimaþjónustu fyrir aldraða og hvernig eigi að byggja upp fleiri hjúkrunarrými en hér hefur verið gert á undanförnum árum. En eins og menn þekkja hefur Framkvæmdasjóður aldraðra verið skertur á hverju ári og verið gengið í þann sjóð. Hann hefur þar af leiðandi ekki verið í stakk búinn til að standa undir þeirri uppbyggingu á hjúkrunarrými fyrir aldraða sem honum var þó ætlað að standa undir.

Ég gæti, virðulegur forseti, farið frekar yfir þessar tillögur en hef rétt drepið á það helsta sem í þeim er að finna. Við teljum, flutningsmenn þessarar tillögu, að það eigi að vera eitt af forgangsverkefnum í þjóðfélaginu á næstu árum að bæta kjör lífeyrisþega og þessi tillaga endurspeglar þennan vilja okkar. Það er hægt að bæta kjör þeirra m.a. með þeirri nýskipan lífeyrismála sem hér er lögð til með því, eins og fyrr sagði, að gera neyslukönnun, koma á afkomutryggingu þannig að lífeyrisþegar fái eðlilegan og sanngjarnan hlut í auknum hagvexti og þjóðartekjum en meðan unnið er að því teljum við engu að síður að ekki sé hægt að bíða og mikilvægt sé að grípa til aðgerða strax sem geta bætt kjör aldraðra. Þar vegur þyngst, eins og ég sagði, virðulegur forseti, að tekjutrygging aldraðra verði hækkuð, að frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús kr. á mánuði, að dregið verði úr skerðingaráhrifum tekna á lífeyri, að ráðstöfunarfé við dvöl á stofnun hækki um 50%, að afnumin verði tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka og að öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar farið er á ellilífeyri.

Þetta eru meginþættirnir í þessari tillögu, virðulegi forseti, sem ég tala hér fyrir fyrir hönd stjórnarandstöðunnar allrar.