133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:48]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að koma hér upp stutt til að mælast til þess að hæstv. forseti íhugaði það að fara að slíta fundi. Klukkuna vantar tíu mínútur í tólf á miðnætti. Margir þingmenn eru í húsinu og fylgjast með umræðum en þurfa að mæta á nefndarfundi í fyrramálið kl. 8.30. Mörg okkar eiga um langan veg að fara heim, a.m.k. sum okkar. Ég tel að þetta sé orðið ágætt í kvöld. Þingið hefur nægan tíma til stefnu til að sinna störfum sínum. Við erum rétt að hefja þriðju þingvikuna. Eins og komið hefur fram hjá mjög þingreyndum mönnum í okkar hópi, til að mynda hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, eru það mikil fádæmi ef ekki algert einsdæmi að slegið skuli á bæði kvöldfundum og næturfundum strax í upphafi máls. Ef ég man rétt er númerið á málinu sem við ræðum í kvöld, þ.e. frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf., mjög lág tala, þingskjal 56. Ég held því að það yrði mjög góður svipur á þinginu að við einsettum okkur að ljúka þingfundi nú um miðnætti og geta síðan frekar haldið áfram störfum okkar og rætt þetta blessaða frumvarp, sem hefði kannski betur aldrei komið inn í þingið, á morgun eftir hádegi. Þingfundur hefst á morgun kl. 13.30 með utandagskrárumræðu og síðan myndum við þá taka til óspilltra málanna.

Ef við tökum eina ræðu í viðbót, sem ég reikna með að taki 40 mínútur, erum við sennilega til a.m.k. 20 mínútur í eitt og síðan taka þá eflaust við andsvör þannig að þeim umræðum mundi þá sennilega ekki ljúka fyrr en tíu mínútur í eitt. Klukkan tifar ansi hratt en nóttin hefur ekki marga tíma. Ég mundi vilja beina þessum orðum mínum til virðulegs forseta um það hvort hann vildi ekki íhuga að fara að slá botninn í þetta.