133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:15]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingflokksformaður Framsóknar gerði áhlaup að því að útskýra það fyrir þingi og þjóð hvað olli þeim umskiptum sem urðu á afstöðu Framsóknarflokksins til rekstrarformsins um Ríkisútvarpið. Fyrir tveimur árum kom ekki til greina af hálfu framsóknarmanna að breyta því í hlutafélag eða í neina slíka mynd en nú hafa þeir gefið það eftir og færa fyrir því rök. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað valdi því að þetta form er valið og hvar það hafi gefist svona vel. Hann nefni dæmi um hvar hlutafélag af þessu tagi hafi gefist svona vel. Af hverju er verið að breyta Ríkisútvarpinu yfir í þetta rekstrarform? Hver eru rökin fyrir því? Hvar hefur þetta gefist svona vel?

Það má meira að segja draga í efa að opinbert hlutafélag, eins og hér er lagt til, njóti þeirra kosta sem hefðbundið hlutafélag getur búið yfir í rekstri fyrirtækja sem eru rekin í ágóðaskyni úti á hinum frjálsa markaði, sem mér finnst að eigi alls ekki við um rekstur á stofnun á borð við þessa. En hvað er það við þetta rekstrarform sem er svona heppilegt utan um rekstur Ríkisútvarpsins? Þeirrar miklu gersemar, sem hv. þingmaður lýsti áðan að væri fyrir þjóðinni. Hvar hefur þetta gefist svona vel? Hvaða dæmi getur hv. þingmaður nefnt okkur því til stuðnings? Hvers konar rekstur er það sem þetta hefur gefist svona vel um? Hver eru dæmin?