133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

Íslensk málnefnd.

[13:40]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja máls á þessu máli. Það er rétt sem komið hefur fram, að á síðasta þingi beitti hæstv. menntamálaráðherra sér fyrir því að sameina fimm stofnanir í eina, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Það var gert með það að markmiði að styrkja rannsóknir í íslenskum fræðum, stöðu íslenskrar tungu og menningar.

Lagt var upp með að styrkja stöðu Íslenskrar málstöðvar og Íslenskrar málnefndar. Ég veit ekki betur en allir sem að þessu máli komu, hvort sem þeir voru í stjórnarandstöðu eða meiri hlutanum hafi verið sammála um þá niðurstöðu sem fékkst. Nú gagnrýna menn hæstv. ráðherra fyrir það að vera ekki búnir að skipa þá nefnd sem hér um ræðir. En ég held að hæstv. ráðherra hafi gefið góðar skýringar á því hvers vegna málið er í þeim farvegi sem það er í.

Ég held að aðalmálið sé að Íslensk málnefnd sé vel skipuð. Það skiptir meira máli en það hvort nefndin sé skipuð vikunni fyrr eða síðar en áætlað var. Ég held að við ættum að fagna því að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sé að komast á legg með undirstofnunum sínum. Við ættum að geta verið sammála um að með henni sé staða Íslenskrar málnefndar styrkt og íslensk tunga og íslensk menning færð á þann stall þar sem þessir ágætu hlutir eiga heima.