133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

Íslensk málnefnd.

[13:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir orðið. Ég tek undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði áðan. Aðhald í þinginu, hvort sem það er af hálfu stjórnarandstöðu eða stjórnarþingmanna, þarf að vera til staðar en það þarf líka að vera málefnalegt. Það þarf að vera málefnalegt og þarf líka að vera heiðarlegt. Ég hef gert mér far um að svara hér heiðarlega. Það er alveg rétt að það hefur dregist að skipa nefndina (Gripið fram í.) en það eru málefnalegar ástæður fyrir því að það hefur dregist. Núna sjáum við að við erum komin með alla þessa tilnefningaraðila sem eru margir. Eins og hv. þingmaður veit er Íslensk málnefnd fjölskipuð. Það eru 15 manns sem skipa þá nefnd. Ég fyrir mína parta legg mikla áherslu á að það gæti jafnræðis milli kynja þegar ráðherrar skipa í nefndir á vegum ríkisins. Ég hef gert mér sérstakt far um það og viðurkenni að það hefur á stundum dregið tímann varðandi það að tilnefna og skipa í nefndir.

Varðandi fjármálin þá er algerlega ljóst að það er skýr vilji að Íslensk málnefnd hafi sama fjárframlag og helst meira til að sinna sínu mikilvæga hlutverki, sem er orðið meira en var áður eins og við töluðum um áðan. Það er alveg skýr vilji bæði ríkisstjórnarinnar og nýskipaðs forstöðumanns að tryggja að svo verði. Ég sé því hins vegar ekkert til fyrirstöðu að Íslensk málnefnd, þegar fram í tímann er litið, verði síðan sérstakur fjárlagaliður.

Við verðum að hafa það í huga að stofnunin er ný, hún er rétt að fara af stað núna. (Gripið fram í: Ekki málnefndin.) Það þarf að gefa henni tíma, m.a. til að koma á þessum samningi sem mun væntanlega verða gerður milli Íslenskrar málnefndar og hinnar nýstofnuðu stofnunar.