133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:33]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta litla mál sem kemur hingað inn reglulega á hverju ári. Mig langar aðeins að leggja orð í belg af því að hér hefur orðið mjög skemmtileg umræða um málefni aldraðra vítt og breitt, og gaman að heyra þingmenn sem þekkja vel til mála ræða þau hér.

Það er auðvitað ekki hægt að segja að hér hafi allt drabbast niður. Það er mjög fjarri sannleikanum. Hér hefur ekkert drabbast niður. Það er búið að gera stórkostlega hluti en auðvitað þarf að gera ýmislegt meira. Það er rétt.

Ég vil draga það fram að hér er hærra hlutfall aldraðra á stofnunum en er annars staðar á Norðurlöndunum. Þess vegna þykir mér svolítið vænt um það þegar ég heyri hv. þm. Guðmund Hallvarðsson tala um að menn skuli ekki geysast of hratt. Hv. þingmaður þekkir mjög vel til þessara mála og hefur staðið fyrir góðri uppbyggingu á þessu sviði og ég held að þetta sé algerlega rétt hjá honum. Við eigum ekki að geysast of hratt af því að við erum komin með svo hátt hlutfall inn á stofnanir. Við eigum að byggja ný rými þar sem þeirra er þörf. Þeirra er þörf sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum líka að leyfa þessum málum að þroskast eðlilega, ef ég get tekið þannig til orða. Við þurfum að auka heimaþjónustuna, bæði ríkið og ekki síður sveitarfélögin. Ég tel að sveitarfélögin þurfi að gera verulegt átak í þessum málum. Þau eru reyndar mörg að gera margt gott og hafa verið að gera síðustu árin þó að það hafi valdið mörgum vonbrigðum að meira en helmingur sveitarfélaga dró úr félagslegri heimaþjónustu fyrir örfáum árum. Það sýndi skýrsla Ríkisendurskoðunar. Sumir er að gera góða hluti en aðrir þurfa að slá í klárinn.

Það þarf að auka heimaþjónustuna. Við höfum verið að því en það þarf að auka hana enn þá meira. Sveitarfélögin þurfa að koma sterkar inn í þjónustuna. Það á að koma með fjölbreyttari búsetuúrræði eins og m.a. hefur verið gert hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt er að þjónusta fólk annaðhvort inni í einkaíbúðum þess, eins og þær eru í dag, vítt og breitt, eða í einkaíbúðum þess eða leiguíbúðum sem eru þá byggðar saman í einhverjum kjörnum þar sem hægt er að koma inn með heimahjúkrun og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Staðan er þannig núna að við munum byggja upp á næstu árum í Reykjavík 200 rými, 110 við Suðurlandsbrautina og 90 á Lýsislóðinni. Samkomulagið sem gert var við eldri borgara mun tryggja viðbótarrými sem ég mun bráðlega kynna hvar verður. Meiri hluti þeirra verður hér á höfuðborgarsvæðinu en það verða nokkrir staðir úti á landi sem fá rými líka.

Það er alveg ljóst að við erum með hátt hlutfall núna inni á stofnunum. Ég hef sagt það áður og hika ekkert við að segja það að á sínum tíma, fyrir mörgum árum, fórum við í vissa kerfisvillu. Það er engum einum um að kenna í því sambandi. Sveitarfélögin voru þar auðvitað miklir gerendur. Það var þegar dvalarheimilin voru byggð upp á sínum tíma, þá fóru þar inn einstaklingar, ekki vegna þess að þá vantaði svo mikla hjúkrunarþjónustu, heldur meira af félagslegum aðstæðum, að vera með öðrum öldruðum, taka þátt í félagsstarfi o.s.frv. Þetta fyrirkomulag er algerlega á leiðinni út í dag. Við erum að breyta dvalarrýmum núna á þessum dvalarheimilum. Þetta er meira og minna að fara yfir í hjúkrunarrými. Dvalarheimili eru á útleið. Þau munu ekki hverfa algerlega, held ég, en þau verða ekki framtíðarúrræði sem við munum byggja upp. Við munum hins vegar byggja upp dagvistarúrræði og hvíldarrými, eins og hér hefur verið drepið á.

Ég vil líka taka fram að hér var skemmtileg umræða um val á þjónustu, að menn geti þá borgað fyrir þá þjónustu sem þeir fá á hverjum stað. Það er módel sem menn hafa rætt víða og m.a. í Kópavogi. Það höfum við rætt líka í heilbrigðisráðuneytinu. Það er á stefnuskrá okkar að við viljum fara inn í þetta nýja kerfi þar sem fólk getur valið meira hvaða þjónustu það vill fá og borgað fyrir hana. Það er hins vegar ekki hægt að gera það eins og lögin eru í dag. Það þarf að breyta lögunum ef ríkið á að koma þar að.

Bráðlega tekur til starfa faghópur í heilbrigðisráðuneytinu sem mun einmitt vinna að þessum lagabreytingum. Ég á von á því að frumvarp komi hér inn í þingið, það verður ekki alveg á næstunni en það mun skila sér þegar þessi vinna er búin. Þá munu þingmenn geta staðfest nýtt kerfi þar sem fólk kaupir ákveðna þjónustu. Meðan kerfið er ekki komið verðum við auðvitað að vinn eftir núgildandi lögum. Þegar nýja kerfið verður komið upp og við búin að breyta lögunum munu eldri borgarar hafa fjármagnið meira í sínum vasa og greiða þá fyrir þjónustuna en ekki eins og þetta er núna þegar allt fer meira og minna í gegnum Tryggingastofnun ríkisins, inn til heimilanna, borgun fyrir þjónustu.

Það er rétt að það er mjög margt að gerast í þessum málaflokki. Það er allt á fullri ferð og við munum sjá miklar breytingar hér á næstunni. Það er réttmætt að halda því fram að við eigum ekki taka þetta of hratt af því að það er ekki gott að byggja hér of mikið heldur. Þetta eru dýr rými. Það kostar 15 millj. að byggja eitt hjúkrunarrými. Það kostar 5 millj. í rekstur á ári. Það er eðlilegt að við sinnum þessu af alúð eins og menn hafa gert. Við eigum að horfa til Norðurlandanna, þar er lægra hlutfall aldraðra á stofnunum en hérna.

Hér hafa líka orðið nokkrar umræður bæði um Sóltún og Hrafnistu. Ég hef heimsótt bæði þessi heimili, m.a. skoðað sérstaklega Sóltún og H-deildina á Hrafnistu. Ég get alveg staðfest það sem hér kom fram að á báðum stöðunum er rekin algjör fyrirmyndarþjónusta. H-deildin sem ég heimsótti fyrir stuttu á Hrafnistu er mjög glæsileg.

Það er búið að gera margt mjög gott, virðulegi forseti, í þessum málaflokki en það verður gott þegar við fáum meira fjármagn í hendurnar til að setja í þjónustuna og það erum við að fá einmitt með að samþykkja þetta frumvarp sem hér er til umræðu og líka frumvarpið sem ég mun koma með líklega í næstu viku eða þarnæstu sem lýtur að útfærslu á samkomulaginu við Landssamband eldri borgara.