133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:25]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson er skapandi þingmaður. Ég er hins vegar ekki alveg sátt við það sjónarmið hans að fjármálastarfsemi eigi á sama hátt og listgreinarnar að þurfa á sértækum ívilnunum að halda, eins og þeim sem hér um ræðir.

Ég sé ekki betur en að fjármálafyrirtækin bjargi sér afar vel þegar skoðaðar eru hagnaðartölur fjármálafyrirtækja og banka á Íslandi. Ég sé ekki að þar þurfi á nokkurn hátt að hlaupa undir bagga. Það þarf hins vegar með listgreinar. Þetta sértæka ákvæði sem hér um ræðir hefur sannað sig og sýnt hversu mikil lyftistöng það er hinni innlendu kvikmyndagerðarflóru. Ég sé ekki að hér sé nein þörf á að ræða útvíkkun á þessu ákvæði eða ákvæðum af sama tagi í því tilliti sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni.