133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:54]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason og Jóhann Ársælsson hafa báðir gegnt hér stöðu upplýsingafulltrúa Ríkisendurskoðunar við að lesa upp hvert hlutverk ríkisendurskoðanda sé, og Ríkisendurskoðunar. Það er í sjálfu sér ágætt og væri betur að þeir mundu lesa oftar þann kafla yfir í ræðu sinni og upplýsingar um hlutverk Ríkisendurskoðunar.

Það liggur fyrir að Ríkisendurskoðun gaf álit sitt á því hvort Halldór Ásgrímsson hefði verið hæfur til þess að annast sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Sú niðurstaða Ríkisendurskoðunar liggur fyrir og sú niðurstaða hefur ekki verið dregin í efa. En af því að þessi niðurstaða var ekki stjórnarandstöðunni þóknanleg, og hv. þm. Jóni Bjarnasyni, er þetta kallað svo smekklega „vottorð um hæfi ráðherra“. Menn geta auðvitað deilt um það hvort Ríkisendurskoðun eigi að annast þetta eða hvort við eigum að hafa einhverja sérstaka lögfræðiendurskoðun á vegum Alþingis til að annast slík verkefni. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar liggur fyrir og henni verður ekki breytt af hv. þm. Jóni Bjarnasyni.