133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:59]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum ársskýrslu Ríkisendurskoðunar ársins 2005. Það er nauðsynlegt að umræða fari fram í þingsölum um störf Ríkisendurskoðunar þar sem um er að ræða óháða stofnun sem starfar á vegum Alþingis.

Í fyrra kom fram hjá hæstv. forseta þingsins að mikilvægt væri að fjárlaganefnd þingsins tæki skýrsluna efnislega til meðhöndlunar og færi yfir efnisatriði hennar ásamt ríkisendurskoðanda. Ég tel að það frumkvæði hæstv. forseta Sólveigar Pétursdóttur hafi verið mjög gott. Fjárlaganefnd þingsins fékk ítrekun frá hæstv. forseta um að kalla Ríkisendurskoðun fyrir nefndina. Það höfum við gert og farið yfir ársskýrslu ársins 2005. Það er sérstaklega mikilvægt að nefndarmenn í fjárlaganefnd séu vel inni í málefnum Ríkisendurskoðunar hverju sinni enda er mikið og náið samstarf á milli Ríkisendurskoðunar og fjárlaganefndar þingsins. Þessi viðleitni og frumkvæði hæstv. forseta þingsins er af hinu góða. Ég tel mikilvægt að í framtíðinni kalli fjárlaganefnd þingsins Ríkisendurskoðun til sín og fari með reglubundnum hætti yfir starfsemi stofnunarinnar og í tengslum við útgefna ársskýrslu hvers árs.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði hér höfum við í fjárlaganefnd fengið á okkar fund Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda og farið yfir ársskýrsluna sem hér er til umræðu. Enginn í þessum sal þarf að efast um mikilvægi Ríkisendurskoðunar en sú stofnun starfar á vegum Alþingis og er algjörlega óháð og sjálfstæð í störfum sínum. Ég undirstrika mikilvægi þess að við stöndum vörð um sjálfstæði stofnunarinnar. Það er mikilvægt fyrir Alþingi að sterk og óháð stofnun starfi á þess vegum. Við þurfum því að tryggja Ríkisendurskoðun gott starfsumhverfi svo að stofnunin sé rekin með myndarbrag og geti tekið að sér þau verkefni sem hún kýs á hverjum tíma.

Ríkisendurskoðun tekur að sér margvísleg verkefni, m.a. stjórnsýsluendurskoðanir og fer yfir málefni einstakra ráðuneyta og undirstofnana þeirra. Það veitir framkvæmdarvaldinu aðhald að stofnun á vegum Alþingis fari ofan í rekstur og stjórnsýslu sem heyrir undir viðkomandi ráðuneyti. Á þeim tímum þegar mörgum þingmönnum, t.d. stjórnarþingmönnum, er brigslað um að vilja ekki standa vörð um sjálfstæði þingsins leggjum við mikla áherslu á að sjálfstæði Ríkisendurskoðunar verði tryggt með því að starfsumhverfi og rekstraröryggi stofnunarinnar sé varðveitt. Ég tel að við hæstv. forseti þingsins séum í því liði að vilja efla Alþingi og stofnanir þess, ekki síst Ríkisendurskoðun, í þeirri viðleitni að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það er mjög mikilvægt að utanaðkomandi óháður aðili sé til í samfélaginu sem fer ofan í þær framkvæmdir sem viðkomandi ráðuneyti standa að. Það er mikilvægt að stofnunin geti tekið mál til athugunar að eigin frumkvæði.

Hlutverk Ríkisendurskoðunar í fjárlagavinnunni er mjög mikilvægt. Við höfum fengið ábendingar og upplýsingar frá Ríkisendurskoðun um stöðu einstakra stofnana og margar aðrar ábendingar eins og á umliðnum árum. Samstarf fjárlaganefndar við Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðanda hefur verið til mikillar fyrirmyndar í fjárlagavinnu hvers árs. Það er mikilvægt að hafa aðgang að stofnun eins og Ríkisendurskoðun sem getur komið með leiðbeinandi ráð til hv. nefndarmanna í fjárlaganefnd sem bætir að sjálfsögðu fjárlagagerðina hverju sinni.

Ríkisendurskoðun gerir grein fyrir flestum verkefnum sínum í skýrslum eða álitsgerðum. Þær eru tíundaðar í ársskýrslu ársins 2005. Þegar hv. þm. Jón Kristjánsson, sem nú er í forsætisnefnd og stjórnar fundi, var formaður fjárlaganefndar skapaðist sú hefð að fjárlaganefnd fór gaumgæfilega ofan í álitsgerðir eða skýrslur sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér. Það er mjög mikilvægt að þingmenn kynni sér þær skýrslur og álitsgerðir sem frá Ríkisendurskoðun koma. Oft er heilmikill broddur í þeim upplýsingum. Því er mjög mikilvægt að þingnefndir, hvort sem það eru viðkomandi fagnefndir, en kannski sérstaklega fjárlaganefnd, setjist yfir þær skýrslur, gaumgæfi efnisatriði þeirra og ljúki málinu með ákveðinni niðurstöðu eða bókun. Ég tel að oftar en ekki sé hægt að ná þverpólitískri sátt um slíkar athugasemdir.

Það er mikilvægt að við fylgjum eftir þeim skýrslum sem koma í þingsal með því að fjárlaganefnd þingsins taki upp á arma sína álitsgerðir og skýrslur frá Ríkisendurskoðun. Að sjálfsögðu þarf Ríkisendurskoðun ákveðinn stuðning frá Alþingi í sínum störfum og ég tel mikilvægt að haldið verði í þá hefð sem skapaðist þegar hv. þm. Jón Kristjánsson var formaður fjárlaganefndar. Þannig bætum við enn frekar störf þingsins og styðjum um leið við störf Ríkisendurskoðunar á hverjum tíma.

Hæstv. forseti. Ég vil nefna eitt að lokum sem ég fagna verulega. Í formála ríkisendurskoðanda er falin ákveðin hvatning um að við stjórnmálamenn þurfum að koma fram á völlinn og hafa forustu um innleiðingu nýrra vinnubragða. Með því á ríkisendurskoðandi við að árangursstjórnunarsamningum sem hafa verið gerðir á milli ráðuneyta og stofnana megi fjölga, þar sem menn setja sér ákveðin markmið um þjónustustig og í fjármálum, þ.e. gert er ráð fyrir að aðilar komi sér saman um kerfi til að mæla árangur. Við þekkjum að þetta er tíðkast mjög mikið í atvinnulífinu og við þurfum að innleiða slíka hugsun í ríkari mæli í ríkisreksturinn. Það er mikilvægt að virkja starfsmenn ríkisins í að ná fram árangri með breyttum stjórnunarháttum og nýta þá miklu þekkingu og reynslu sem þeir hafa. Þannig getum við um leið bætt þjónustu ríkisins í margvíslegum málaflokkum og jafnframt farið betur með það fjármagn sem við verjum til viðkomandi málaflokka. Þetta eru æskileg markmið. Ákall ríkisendurskoðanda um að við stjórnmálamenn þurfum að koma meira fram í umræðuna um breytingar sem þessar tek ég mjög alvarlega því að við þurfum að stíga skref í þá átt að bæta þetta umhverfi.

Ég get að lokum sagt sem dæmi að á fundi með Landspítala – háskólasjúkrahúsi, sem veltir yfir 30 milljörðum kr. á hverju ári, kom fram ákall til okkar stjórnmálamanna um að gera ákveðnar breytingar sem gefa t.d. forstöðumönnum þeirrar stóru stofnunar möguleika á að endurskipuleggja rekstur sinn með það að markmiði að bæta heilbrigðisþjónustuna og jafnvel að fara betur með fjármuni ríkisins. Þar er hreyft við mjög umdeildu máli, sem eru lög um opinbera starfsmenn. Það er brýnt að við stjórnmálamenn tökum umræðu um þann þátt. Það er mikilvægt að við verðum við ákalli stofnana eins og Landspítala – háskólasjúkrahúss og skoðum slík mál ofan í kjölinn. Það er mikilvægt að við förum hverju sinni mjög vel með fjármuni skattborgaranna. Það er ætlunin og ég hvet til umræðu um þessi málefni á næstu vikum og mánuðum.

Ég vil annars lýsa mikilli ánægju með þá ársskýrslu og þann fund sem við nefndarmenn áttum með ríkisendurskoðanda. Það er almenn samstaða um það í fjárlaganefndinni að bæta verklagið enn frekar. Það tekur tíma og við viljum vinna vel að því verkefni og í samstöðu, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Svo vil ég að lokum þakka hæstv. forseta þingsins fyrir frumkvæði hennar í að hvetja nefndina til að fara ítarlega í ársskýrsluna með Ríkisendurskoðun hverju sinni. Það er mjög mikilvægt og ég hef trú á að það verklag haldist áfram.