133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:39]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að ekki sé ástæða til að hafa þetta orðaval í þessari umræðu. Ríkisendurskoðun hefur ekki verið rökkuð niður. Hér hafa menn þvert á móti haldið því fram að langflest af því sem Ríkisendurskoðun hefur skilað frá sér sé afar vel unnið. Það fríar okkur hv. alþingismenn þó ekkert frá því að þurfa að gera grein fyrir skoðunum okkar á því hvort allt sé þar eins og best er á kosið. Og hvenær eiga menn að ræða það og hvar ef ekki í þessum sal núna?

Ég hef ríka ástæðu og ég hef gert grein fyrir þeim ástæðum sem ég hef fyrir því að segja að ekki sé heppilegt að velja ríkisendurskoðanda á þann hátt sem gert er. (Gripið fram í.) Ég tel að margar leiðir séu til þess. Ég nefndi meira að segja í fyrri ræðu minni að það mætti t.d. sækja til Ameríku hugmyndir um hvernig hægt væri að velja hóp sem gæti síðan tekið þetta mál til skoðunar. Það eru margar leiðir til. Spurningin er: Er einhver pólitísk samstaða fyrir hendi um að gera það? Ég kalla eftir því hjá hv. þingmanni. Er hann tilbúinn að setjast yfir einhverjar slíkar hugmyndir? Mér finnst hann bregðast illa við og virðist ekki líklegur til þess að hafa neinn áhuga á því að reyna að finna aðra leið en þá sem fyrir hendi er.