133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar.

232. mál
[19:17]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að gera ýmsar lagfæringar og breytingar. Það er rétt sem hv. þm. Jón Gunnarsson vakti athygli á áðan að Fiskistofa hefur orðið ansi mikil vald en yfirleitt eru það starfsmenn Fiskistofu sem komast að þeirri niðurstöðu að mönnum hafi orðið eitthvað á eða að eitthvað í framkvæmdinni hafi ekki staðist lög og reglur og reglugerðir — en í reglugerðum er yfirleitt mikið af þeim ákvæðum sem hér er verið að tala um í lögum að því er varðar framkvæmdina. Fiskistofa tekur einnig svolítið á því hvort verið er að tala um minni háttar brot eða meiri háttar brot.

Reyndar er samt sett hér inn það ákvæði að við fyrstu aðgerð til sviptingar skuli vera um áminningu að ræða. Að hluta til kann það að vera sett inn til þess að bregðast við því sem menn telja minni háttar brot og einkum ef brotið er ekki framið með neinum sérstökum vilja, hvað þá heldur einbeittum brotavilja, eins og menn orða það stundum, heldur einfaldlega vegna þess að reglurnar eru kannski ekki nægilega ljósar eða ekki ljóst að tiltekið athæfi væri brotlegt. Þetta kann að vera til bóta en allt að einu þá er það Fiskistofa sem að stórum hluta rannsakar þessi mál, finnur yfirleitt tilefnið, rannsakar það og framkvæmir síðan með veiðileyfissviptingum eða annars konar leyfissviptingum það sem á að verða til refsiákvörðunar vegna viðkomandi athæfis.

Það er alveg rétt að Fiskistofa hefur í gegnum lagasetningar á undanförnum árum fengið veruleg völd í þessa veru, eftirlitsþátt, ákvörðunarþátt og rannsóknarþátt og síðan framkvæmdaþátt og eftirfylgni refsinganna. Ég held að þessi mál þurfi verulegrar athugunar við í hv. sjávarútvegsnefnd og menn þurfi að fara í gegnum það sem hér er verið að leggja til, en að sumu leyti sýnist mér að þetta geti verið til bóta miðað við núgildandi reglur en að öðru leyti má kannski deila um hvort svo sé.

Það hefur auðvitað mikil áhrif á rekstur hvers fyrirtækis hvort heimildin til ákveðinna athafna í sambandi við atvinnustarfsemina er tekin af mönnum um lengri eða skemmri tíma, ég tala nú ekki þegar leyfissviptingar eru farnar að vera heilt ár og menn hafa kannski byggt upp vinnuferla sína á ákveðnum aðferðum o.s.frv. Þetta er eitthvað sem menn þurfa að fara mjög vandlega í gegnum í sjávarútvegsnefnd og skoða og leggja mat á hvort rétt sé að farið með þeim tillögum sem eru í frumvarpinu og auðvitað er nauðsynlegt að þar verði menn kallaðir til til ráðgjafar og komi með athugasemdir eins og venja er.

Hitt er rétt að segja í örfáum orðum, hæstv. forseti, að lagaumhverfi sjávarútvegsins er geysilega víðfeðmt, það eru svo ótrúlega mörg lög sem koma að atvinnustarfseminni í sjávarútvegi, fiskveiðum, meðferð aflans og skráningu hans, vigtunarreglum o.s.frv., sölu hans á fiskmörkuðum, vigtun þar, heimavigtunarleyfum og flutningum, og alls staðar eru inni mismunandi ákvarðanir eða ferli sem geta leitt til mismunandi refsingar. Löggjöfin í heild sinni, ég tala nú ekki um lögin um fiskveiðar sem eru með um 37 bráðabirgðaákvæðum, ef ég man rétt, þau eru auðvitað að mörgu leyti barn síns tíma, eins og sumir segja — ég held að hæstv. dómsmálaráðherra hafi meira að segja orðið fyrstur til að taka sér það orð í munn. Það kann því að vera að menn þurfi að fara að skoða þetta heildstætt.

Ákveðinn hópur hefur unnið við þessi mál, eins og kemur fram í athugasemdum, og sá hópur hefur örugglega fengið menn til skrafs og ráðagerða þannig að auðvitað er verið að vinna út frá þeim lögum og reglum sem í gildi eru. Allt að einu er umhverfið orðið ansi flókið og það þarf að gaumgæfa vel þegar verið er að setja fram tillögur um breytingar því að það er ekki grínlaust að verða fyrir sviptingu og geta kannski illa stundað atvinnustarfsemi sína svo vikum eða jafnvel mánuðum skipti.