133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[19:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé dálítið mikið mál hvernig þessu er fyrir komið, annars vegar hvað varðar öryggismálin sjálf og hins vegar þann trúnað sem hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni og kveðið er á um í þessum lögum. Þetta er mjög einfalt ef um opinbera starfsmenn er að ræða og í hreinum opinberum stofnunum. En eins og þarna er um að ræða, ef við tökum Neyðarlínuna, þá býður hún út verkefni til einkaaðila og þar koma aðrir aðilar að í öryggisþjónustunni og öryggisvörslunni, ef við tökum siglingaverndina þá er hún er að hluta til boðin út o.s.frv.

Ég held, herra forseti, að það væri mjög mikilvægt að hv. samgöngunefnd fái, þegar hún fer að fjalla um málið, nákvæmt skipurit sem sýnir núverandi stöðu þeirra öryggismála sem við erum að tala um gagnvart skipum, höfnum, farþegum og farmflutningum. Ég hef á tilfinningunni að þetta sé að verða býsna flókinn garður þar sem verkin eru boðin út sitt á hvað og að huga þurfi að því hvort nægilega sé gætt að þeim þáttum sem hæstv. ráðherra lagði hér áherslu á, um trúnað og öryggismál. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að við fáum mjög nákvæmt skipurit yfir hver á hvað og hvar hvert verkefni er statt núna varðandi öryggismálin, hvort heldur það lýtur að Neyðarlínunni, vaktstöð siglinga eða öðru því sem talið er upp í þessum lögum.