133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:53]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin gerði margar tillögur um að koma böndum á þensluna. Eitt var að fresta framkvæmdum, sem hafði tilætluð áhrif. Annað var að breyta reglum varðandi Íbúðalánasjóð sem hafði áhrif á húsnæðismarkaðinn á þeim tíma. Þær tillögur sem ríkisstjórnin gerði í sumar hafa því vissulega skilað árangri.

Hæstv. forseti. Ég vil fara aðeins yfir það þegar hv. þingmaður leggur að jöfnu hvort ríkisstofnanir eru yfir 4% af fjárheimildum eða innan við 4% af fjárheimildum. Það er allt annað mál þegar forstöðumenn ríkisstofnana sýna aðhald í rekstri og safna í sjóði til að mæta óvæntum áföllum í rekstri stofnana sinna. Það er ekki hægt að bera það saman þegar menn keyra umfram fjárlög eða eiga inneignir. Ef Samfylkingin vill þann hvata í kerfinu að forstöðumenn ríkisstofnana eigi alltaf að eyða öllu því fjármagni sem er úthlutað á fjárlögum viðkomandi árs þá er Samfylkingin á villigötum.

Síðan vil ég að lokum, hæstv. forseti, af því að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi Háskólann á Akureyri, hafa það á hreinu — hún þarf ekki að minna mig á um hvað málefni Háskólans á Akureyri snerust í síðustu fjárlagagerð — að ég afgreiddi fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2006 með þeim fyrirvara að meiri framlög þyrfti til Háskólans á Akureyri. Þá stóð yfir vinna í ráðuneytum, vegna þess að í Borgum eru fleiri en ein stofnun, við að skoða hvað það mundi kosta að leysa þennan vanda og hvaða áhrif það hefði á einstakar stofnanir í Borgum á Akureyri. (Gripið fram í.) Ég er sáttur við að komið var til móts við háskólann hvað (Gripið fram í.) varðaði húsaleiguna og nemendaígildi. Hins vegar þurfum við að fara mjög nákvæmlega ofan í fjármál skólans vegna ársins 2007. Sú vinna er í gangi í fjárlagagerðinni.