133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:09]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað borga þeir sem hafa hærri tekjur hærri skatta. Það hefur aldrei nokkurn tíma farið á milli mála. Um það hafa allir verið sammála, alltaf hreint og engar deilur um það. Hitt er annað mál, að með því að taka af efra þrepið, hátekjuskattinn, er mönnum ekki lengur hegnt fyrir að leggja meira á sig. Mönnum var refsað fyrir að vera skipstjórar. Við töldum það ófært og vildum það ekki. Það var opinber stefna Sjálfstæðisflokksins.

Það fer enginn í grafgötur með að kjör Íslendinga hafa hækkað eftir skatta, meira en allra annarra þegna þessa heims og allra þegna í Evrópu. Eru nokkrar deilur um það? Getur einhver bent á annað þjóðfélag þar sem kjörin hafa batnað meira? Hvergi. Hvergi nokkurs staðar er hægt að benda á það. Þetta er réttlátt þjóðfélag. Síðasta skýrsla Sameinuðu þjóðanna um lífskjör heimsins var skýr. Noregur var þar í efsta sæti og Ísland númer tvö.