133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það millilandaflug sem hefur verið í gangi frá Akureyri á undanförnum mánuðum og missirum hefur sýnt það og sannað að þörf er fyrir það flug, það er markaður fyrir hendi og eftirspurnin er næg. Það eina sem strandar á er að aðstæðurnar eru ekki fullnægjandi og það er auðvitað mjög dapurlegt og mikil vonbrigði ef flugrekandinn telur sig verða af þeim ástæðum — ekki vegna þess að það vanti umferð, flutninga eða farþega, heldur af tæknilegum ástæðum — að fella niður flug þarna yfir vetrartímann. Það er algerlega óumflýjanlegt að lengja flugbrautina og gera þær ráðstafanir í sambandi við tæknibúnað og aðstöðu sem þarf til þess að þarna sé sómasamlega búið að fluginu. Auðvitað þyrfti að gera allt sem hægt er til að lækka lágmörk til að auka notkunaröryggi flugvallarins þannig að það gerist sem allra sjaldnast að ekki sé hægt að nota hann og að snúa verði flugi til annarra flugvalla.

Það er a.m.k. algerlega óásættanlegt, eins og þó hefur legið í loftinu, að lágmörk mundu frekar hækka en hitt vegna þess að tæknibúnaður væri að ganga úr sér. Það er ljóst að praktískast væri að lengja flugbrautina á Akureyrarflugvelli samhliða gerð Vaðlaheiðarganga. Það væri ákaflega hagkvæmt að tvinna þær tvær framkvæmdir saman og nota kjarnann úr göngunum sem undirbyggingu undir flugbrautina. Sú var einmitt hugsunin með samræmdri samgönguáætlun á sínum tíma að hægt yrði að tengja saman framkvæmdaflokka á mismunandi sviði samgangna og þarna lægi það mjög beint við.

Ég vona sannarlega að þegar samgönguáætlun birtist loksins á borðum okkar þingmanna, sem vonandi verður fyrr en síðar, verði báðar þessar framkvæmdir þar inni, þ.e. lenging Akureyrarflugvallar og Vaðlaheiðargöng, og gert ráð fyrir því að hægt verði að vinna þær saman með þeim hætti sem ég hef lýst og er augljóslega hagkvæmt.