133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:49]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert við umræðurnar í Norðurlandaráði að ég heyrði ekki miklar umræður um að Ísland og Noregur væru utan Evrópusambandsins.

Ég tel að við eigum að fylgjast með þróuninni þar en að það sé ekki tímabært fyrir okkur að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar eigum við að laga efnahagsmál okkar að því sem gerist innan Evrópusambandsins. Ég er ekki einn af þeim sem útiloka aðild að Evrópusambandinu um alla framtíð. Ég er ekki í þeim hópi.

En ég tel að það sé ekkert sem rekur á eftir okkur núna að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við eigum að fylgjast með því hvað þar gerist. Við höfum lagað okkur að reglum þeirra. Um það hafa verið deilur. Ég tók þátt í því í vor að flytja hér frumvarp um aðflutnings erlends vinnuafls sem menn hafa deilt mikið um upp á síðkastið.

Við höfum mikið samstarf við Evrópu, eðli málsins samkvæmt, og það er vaxandi og við þurfum að huga vel að efnahagsmálum okkar. En ég er ekki einn af þeim sem telja að við eigum að fara og sækja um aðild á morgun. Við eigum að sjá til hvernig þessi þróun verður.