133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:52]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei. Ég tel það ekki mistök að þetta frumvarp hafi verið flutt. Ég flutti það og tók ákvörðun um að flytja það. Ég gerði það eftir viðræður við aðila vinnumarkaðarins. Ég gerði það eftir að um það hafði náðst viss sátt milli ASÍ og aðila vinnumarkaðarins að fara þá leið sem farin var. Ég tel það rétt hjá núverandi hæstv. félagsmálaráðherra með fulltingi ríkisstjórnarinnar að fresta aðlögun tveggja ríkja og sjá síðan í vor hvernig hin nýja löggjöf kemur út.

En hitt vil ég leggja höfuðáherslu á, og það var ætíð í mínum huga, að það þyrfti að leggja fé til innflytjendamála. Gera innflytjendaráði fært að starfa. Ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á það. Í þessari löggjöf voru lagðar skyldur á atvinnulífið um að leggja fram ráðningarsamninga. Það þarf að gera eftirlitsaðilum kleift að ganga eftir því. Sú samstarfsnefnd sem átti að fara yfir þau mál þarf að starfa vel og vera vel á vaktinni um hvernig þetta fyrirkomulag reynist.

Að þessu öllu saman uppfylltu þá tel ég að þetta hafi verið rétt ákvörðun og við þurfum á vinnuaflinu að halda. Sem betur fer er sú sérstaða okkar að innflytjendur fá vinnu. Það er dýrmæt sérstaða og vonandi getum við haldið uppbyggingu atvinnulífsins áfram þannig að svo verði.