133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:35]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður talaði um Svalbarðadeiluna í morgun og ég veitti ekki andsvar þá ætla ég aðeins að koma inn á það mál núna. Þannig er mál með vexti að aflað hefur verið ítarlegrar og vandaðrar álitsgerðar virts erlends sérfræðings og beðið hefur verið um viðbótarálitsgerð um afmarkaða þætti málsins. Jafnframt hafa verið haldnir tvíhliða samráðsfundir um málið með fjölda aðildarríkja Svalbarðasamningsins. Viðkomandi ríki hafa sýnt málinu mikinn áhuga og er ljóst að þau þurfa að taka afstöðu til þess hvernig þau munu gæta hagsmuna sinna sem aðildarríki samningsins í væntanlegu dómsmáli. Hópur aðildarríkja Svalbarðasamningsins hefur einnig átt sérstakan samráðsfund um landgrunnsmál Svalbarða. Þetta vildi ég segja um það mál.

Í sambandi við Miðausturlönd, sem ekki var fjallað um í ræðu minni eins og hefur komið fram, það er margt sem ekki var rætt þar og ekki tekið fram í þeirri ræðu en hins vegar kom ég inn á ýmis mál að mínu mati, þá vil ég vil ítreka afstöðu Íslendinga í sambandi við hin alvarlegu mál fyrir botni Miðjarðarhafsins. Við höfum lagt áherslu á vopnahléslínuna frá 1949 og að hún liggi til grundvallar áætlunum sem leiði til þess að tvö ríki, Ísrael og Palestína, búi hlið við hlið innan öruggra og viðurkenndra landamæra. Ríkisstjórnin styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna á hernumdu svæðunum og Ísland hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem og víðar fordæmt ofbeldisverk beggja aðila.

Ég vil að síðustu segja að síðan ég varð ráðherra hafa (Forseti hringir.) verið lagðir 290 þúsund dalir til Palestínu (Forseti hringir.) sem gengið hafa beint til fólksins þar.