133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:04]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrrverandi iðnaðarráðherra sagði æ, æ, þegar stórhækkun á rafmagnsreikningum bænda og fjölmargra atvinnurekenda á landsbyggðinni lá fyrir, setti nefnd í málið og síðan ekki söguna meir.

Samgönguráðherra kemur af fjöllum og lætur sig litlu varða þegar upplýst er að síma- og fjarskiptakostnaður hafi stórhækkað eftir sölu Símans. Ráðherrann sýnir engin viðbrögð þótt viðhaldsþjónusta sé stöðugt dregin saman á landinu, starfsfólki sagt upp eða flutt til þannig að nú eru heilu landsvæðin að verða án þjónustu. Suðurfirðir Vestfjarða munu búa við algjört óöryggi í símamálum og þjónustu við endurvarpsstöðvar útvarps frá næstu áramótum, hvort tveggja grundvallaröryggistæki á landsvísu. Ráðherrann beinir atvinnuvegum sem byggja á nútímavegasamgöngum, almennilegri flutningsgetu og samkeppnishæfu verði og þjónustu til Reykjavíkur. Enda hefur núverandi ríkisstjórn tekið ákvörðun um að styrkja búsetu á þrem stöðum á landinu, á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Miðausturlandi. Öll önnur svæði mega éta það sem úti frýs í stefnumótun ríkisstjórnarinnar, líka Ísafjörður, sem hafður er með til málamynda.

Það er stundum notuð sú ágæta samlíking þegar skilningur manna er tregur að leiðslur séu langar. Það er viðeigandi að nota um skilning hæstv. ríkisstjórnar á málefnum dreifbýlisins og einnig að flutningsgetan sé á borð við það sem gerðist fyrir 20–30 árum. Metnaður í þeim málum sem heyra undir hæstv. samgönguráðherra hefði átt við fyrir 20–30 árum, hvort heldur er í vegagerð eða síma- og fjarskiptamálum. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Það er tilhlökkunarefni að nú hyllir undir nýjan samgönguráðherra með metnað og framsýni.