133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:06]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í byrjun taka undir þau sjónarmið hjá hv. málshefjanda að það sé full ástæða til að fylgjast með verðlagningu fjarskiptafyrirtækja og veita þeim aðhald og sjá til þess að samkeppni sé ríkjandi á þessum markaði. Ég vil með sama hætti taka undir þau sjónarmið að landið verði eitt gjaldsvæði. Þar með hygg ég að leiðir mínar og hv. málshefjanda skilji, því að af máli hans og svo oft í ræðum hans hér mætti ætla að ekkert hafi gerst í fjarskiptamálum síðustu árin, sérstaklega eftir að ríkið hætti að standa í þeim rekstri. Þá hljótum við að spyrja: Er það virkilega svo? Ég vil nefna aðeins örfá atriði.

Það eru ekki nema rétt rúmlega tvö ár síðan Farice-strengurinn var opnaður sem olli byltingu í samskiptum okkar við útlönd og á sinn þátt m.a. í útrás margra útrásarfyrirtækja. (Gripið fram í.)

Í annan stað vil ég nefna að NMT-kerfið er að ganga sér til húðar en er u.þ.b. að verða leyst af með nýrri tækni sem gjörbyltir NMT-tækninni.

Í þriðja lagi er með sama hætti í undirbúningi og stutt í að tekið verði upp landsdekkandi Tetra-kerfi sem mun leiða til byltingar á öryggissviði. Ég nefni 1. áfanga í útboði Fjarskiptasjóðs þar sem göt í GSM-kerfinu á hringveginum á fimm helstu heiðarvegum eru tekin. Í annan stað er verið að bjóða út í 2. áfanga á vegum Fjarskiptasjóðs GSM á helstu ferðamannastaði. Ég nefni það sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að fyrir 2004 voru um 20 þúsund heimili án háhraðatengingar, þau eru 6.300 núna, og innan rúmlega tveggja ára verður að öllum líkindum búið að tengja þau öll.

Svo kemur hv. þm. Jón Bjarnason og segir: Það hefur lítið gerst í fjarskiptamálum. Það er einfaldlega rangt.