133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:19]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það ætti að vera umhugsunarefni fyrir stjórnarliða að fylgjast með þeirri nauðvörn sem hæstv. samgönguráðherra þarf að beita í þessu máli. Gjöld hafa hækkað og þjónustan á landsbyggðinni hefur minnkað. Í gangi er fákeppni, einokun fyrirtækja og hvað gerir hæstv. ráðherra? Hann beinir talinu að allt öðru. Hann fer að tala um heimilissíma. Það er það eina sem hægt er að benda á að hafi ekki hækkað.

Ég var furðu lostinn þegar ég heyrði ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, hvað hann er kokhraustur yfir ástandi mála, þingmaður sem kemur frá Siglufirði, stað sem hefur orðið rækilega fyrir barðinu á stjórnarstefnu ríkisstjórnarinnar á umliðnum árum hvað varðar fjarskipti. Það mætti nefna loftskeytastöðina sem var lokað á Siglufirði og síðan hefur starfsstöð Símans þar verið lokað. Ég átta mig ekki á því hvað menn eru að fara og hvers vegna þeir ræða ekki um málið af sanngirni eins og hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gerði. Hann ræddi um að það væri áhyggjuefni að verð á farsímasamtölum hefði hækkað.

Nei, þessi umræða á annað skilið en svona kjaftavaðal, vil ég segja. Að menn séu að hreykja sér yfir nákvæmlega engu. Ástandið á landsbyggðinni er slæmt. Þetta eru málefni sem skipta miklu máli, samgöngumálin í víðustu merkingu, gagnaflutningar sem eru forsenda þess að hægt sé að byggja upp atvinnulíf á landsbyggðinni.

Ég vil nefna fleira í þessari umræðu. Ég bendi á að fyrirtæki sem eru í samkeppni við Símann og sum hver, eins og Snerpa sem er staðsett á Ísafirði, hafa leitað til Samkeppniseftirlitsins um að greitt verði úr þegar þau telja sig hafa orðið fyrir barðinu á ójafnri samkeppnisstöðu. Hvað gerist? Þau fá ekki afgreiðslu sinna mála. Þetta er alvarleg staða sem verður að ræða af alvöru.