133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:40]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé nokkuð vel að orði komist hjá hv. þingmanni með „Freudian slip“, því að gjarnan hefði ég viljað komast hjá því að flytja þetta frumvarp. Ég þekki mætavel til fyrri umræðna um málið. En staðreyndin er einfaldlega sú að þessu mikilvæga verkefni er ekki lokið. Það þarf að klára það. Það skiptir máli að það verði gert og því er þetta lagt til.

Það er ekki rétt að ekki hafi verið leitað leiða fyrr en nýlega til að finna aðra lausn á þessu máli. En það má hins vegar kannski segja að það hafi komið of seint í ljós að rétt væri að leita samstarfs við aðra aðila um það að komast að niðurstöðu í málinu. Til þess var nefndin skipuð að fleiri aðilar kæmu að því að finna hina leiðina í þessu máli, ef svo má að orði komast.

Ég held að við hljótum að vera sammála um að það þarf að klára verkefnið, að það þarf að fjármagna verkefnið, en það er ekki augljóst í dag að einhver önnur leið sé betri en sú sem hér er lögð til.