133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:57]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan hef ég enga sérstaka ástæðu til að ætla að eitthvað sé ekki í lagi hvað þessa starfsemi varðar. Því sé ég ekki ástæðu til að beina því til Ríkisendurskoðunar, en Ríkisendurskoðun fer yfir reikninga þessarar stofnunar eins og annarra stofnana ríkisins og yfir fjármál allra þeirra aðila sem að þessu koma. Sjái hún eitthvað sem er ástæða til að skoða hef ég ekkert á móti því að hún geri það. Eins og ég segi er henni bæði rétt og skylt að skoða það sem hún telur rétt að skoða.

Meira að segja þarf hana ekkert endilega að gruna að eitthvað sérstakt sé á seyði til að skoða hlutina. Ég treysti Ríkisendurskoðun fullkomlega til að hafa frumkvæði að því að skoða það sem hún telur eðlilegt að skoðað sé án þess að ég þurfi sérstaklega að beina til hennar einu eða neinu um það.