133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:40]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. fjárlaga er ríkissjóði skilað 9 milljarða kr. afgangi á árinu 2007. Það endurspeglar gríðarsterka stöðu ríkissjóðs. Þrátt fyrir þetta er stórauknum fjármunum varið til velferðar-, heilbrigðis- og menntamála. Við ætlum áfram að standa undir því velferðarþjóðfélagi sem við höfum byggt upp á síðustu árum.

Ég vek athygli á því að í mennta- og heilbrigðismálum hefur hv. stjórnarandstaða ekki lagt fram neinar tillögur við 2. umr. fjárlaga ársins 2007.

Hæstv. forseti. Í ljósi sterkrar stöðu ríkissjóðs getum við haldið áfram að auka kaupmátt almennings. Á næsta ári stendur fyrir dyrum að hækka skattleysismörk upp í 90 þús. kr. Það stendur til að hækka barnabætur um 25% eða um 1,7 milljarða, sem munu skila sér sérstaklega til lágtekju- og millitekjufólks.

Það stendur jafnframt til að lækka tekjuskatt um 1% og jafnframt lækka virðisaukaskatt á matvælum sem mun hafa í för með sér meiri kaupmátt fyrir almenning og lægri verðbólgu á næsta ári. (Gripið fram í.) Einnig stendur til að hækka frítekjumark aldraðra og lífeyrisþega upp í 300 þús. kr. án þess að lífeyrir viðkomandi skerðist.

Hæstv. forseti. Sterk staða ríkissjóðs veldur því að við getum haldið áfram að standa vörð um velferðarkerfið. Við getum haldið áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Við getum líka haldið áfram að styrkja kaupmátt heimilanna í landinu. Við munum halda áfram á þeirri braut og ég er stoltur af því fjárlagafrumvarpi sem við höfum lagt fram.

En því miður er engin stefna í veigamiklum atriðum af hálfu stjórnarandstöðunnar. Í veigamiklum málum koma engar tillögur frá stjórnarandstöðunni. Það er fáheyrt og því miður ríkir algert stefnuleysi (Gripið fram í.) og glundroði á þeim bæ.