133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:59]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mikið hagsmunamál og það er mikið réttlætismál fyrir aldraða og öryrkja sem afla sér einhverra launatekna að það verði ekki til að skerða greiðslur til þeirra úr almannatryggingum. Aldraðir og öryrkjar sem vilja afla sér tekna, hugsanlega tímabundið, fólk sem í mörgum tilvikum býr við óstöðugt heilsufar, veigrar sér við því vegna þess að það er af því tekið úr greiðslum almannatrygginga.

Ríkisstjórnin hefur látið undan þrýstingi utan þings og innan, þrýstingi frá Landssambandi eldri borgara, frá Öryrkjabandalaginu og stjórnarandstöðunni hér á þingi, og vill lötra áfram í framfaraátt. Við viljum stíga myndarlegt skref. Í stað þess að frítekjumarkið verði 300 þús. kr. viljum við að það verði 900 þús. kr. á ári. Ríkisstjórnarflokkarnir hér á Alþingi leggjast gegn þessum framförum, leggjast gegn þessu framfaraskrefi. (Forseti hringir.) Við segjum já.