133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:51]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég átti sæti í utanríkismálanefnd á þessum umrædda tíma. Ég hlustaði á þetta í fréttum sem við erum að ræða hér. Fyrstu upplýsingarnar um kúvendingu íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum komu í erlendum fréttum, á erlendum fréttastofum við það að lesinn var upp listi yfir 30 viljuga. Þannig gerðust þessir hlutir.

Nú, eftir alla þá umræðu sem hefur farið fram, kemur nýr formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfund. Hann heldur ræðu um þetta viðkvæma mál sem aldrei hefur fengist niðurstaða í á Alþingi. Hann segir: Þetta voru rangar upplýsingar. Þetta voru rangar ákvarðanir. Þetta var ekki vandaður undirbúningur. Klappið varð svo mikið að hann varð að gera hlé á ræðu sinni og það féll steinn frá hjarta allra viðstaddra.

Við erum vön uppákomum hjá Framsókn á kosningavetri. Ég er ekki vön því að formaður flokks sé með eina afstöðu á miðstjórnarfundi sínum og aðra afstöðu í ríkisstjórn en svo virðist vera nú. Svo virðist vera nú eftir ræðuna hér.

Ágæti forseti. Ekkert sem nú er sagt breytir stuðningi íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak á sínum tíma eða þurrkar okkur út af lista 30 viljugra á þeim afdrifaríka tíma. Orð hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes um að ákveðið hefði verið að amast ekki við því að við værum á listanum eru grundvallaratriði. Það breytti atburðarásinni. Það breytti ásýnd Íslands og okkar utanríkisstefnu. Það er ljóst að Alþingi á eftir að gera upp þessi mál og mér er stórlega misboðið á þessu augnabliki.